Fjölsótt þjóðahátíð á Akranesi

8. nóv. 2007

Vel heppnuð þjóðahátíð var haldin á Akranesi á sunnudaginn undir yfirskriftinni Akranes; fjölþjóðlegur bær.

Þetta var í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin á Akranesi, en hún er liður í Vökudögum, menningarhátíð. Í ljósi þess að íbúar í bænum eru af tuttugu og einu þjóðerni þótti Rauða krossinum við hæfi að leggja ríka áherslu á fjölmenningu.

Á hátíðinni sem haldin var í Skrúðgarðinum, kaffihúsi á Akranesi, buðu fulltrúar sextán landa frá fjórum heimsálfum til matarveislu og kynntu einnig ýmislegt tengt menningu sinni. Þessi lönd voru Nígería, Noregur, Ísland, Jamaíka, Taíland, Rússland, Írland, Skotland, Ungverjaland, Filippseyjar, Indland, Pólland, Tyrkland, England, Bandaríkin og Úkraína. Bæjarstjórinn á Akranesi, setti hátíðina og Sveinn Kristinsson, formaður Akranesdeildarinnar ávarpaði gesti, áður en dagskráin hófst.

Það er skemmst frá því að segja að hátíðin sló gjörsamlega í gegn. Um tíma var örtröðin fyrir utan kaffihúsið svo mikil að algjört umferðaröngþveiti skapaðist. Það var því mikill fjöldi gesta, bæði Akurnesingar og aðrir sem komu lengra að til þess að taka þátt í fjörinu, sem skemmti sér konunglega langt fram eftir degi.

 
Mikið var sungið og trallað
Fjöldi listamanna kom fram allan daginn með fjölbreytt atriði, má þar nefna skoska, thaílenska og ameríska dansa, þjóðlög úr ýmsum áttum og fleira. Þegar formlegri dagskrá lauk héldu tónlistarmenn úr ólíkum áttum áfram að djamma saman, enda myndaðist einstök stemning á hátíðinni.

Það var samdóma álit allra þeirra sem komu að hátíðinni að þjóðahátíð á Akranesi ætti hér eftir að vera fastur liður í Vökudögum ár hvert, enda frábær leið til þess að kynnast nýju fólki og þeim fjársjóðum það hefur í farteskinu.

Í tilefni Vökudaga stendur Rauði krossinn á Akranesi einnig fyrir fjölmenningarlegri sýningu og kynningu á íbúum af erlendum uppruna í anddyri verslunarhúsnæðis þar sem Bónus, Apótek Vesturlands og Domino’s eru til húsa. Sýningin stendur til 10. nóvember og er opin á verslunartíma.