30 ára afmæli Búðardalsdeildar

12. nóv. 2007

Deild Rauða krossins í Búðardal var stofnuð 13. september 1977. Aðalforgöngumaður að stofnun deildarinnar var Kristján Jóhannsson.

Deildin varð því 30 ára í ár og ákveðið var að halda upp á afmælisárið með opnu húsi í Búðardal í kynningarviku Rauða krossins þann 20. október í húsnæði deildarinnar sem og á Reykhólum 3. nóvember.

Það var gert og lukkaðist vel. Tekin var saman saga deildarinnar, en heiðurinn af því verki eiga Guðrún María Björnsdóttir og Steinunn Matthíasdóttir. Eins var deildin og verkefni hennar kynnt. Þó nokkrir skráðu sig sem sjálfboðaliða og nutu kaffis og með því eða safa og með honum ef menn kusu það frekar. Vöfflurnar freistuðu margra og hefur rjóminn án efa haft áhrif á mælingar, en Heilsugæslustöðin bauð upp á kólistrol-, blóðþrýstings- og blóðsykurmælingar á báðum stöðum. Eins voru sjúkrabílarnir sýndir.

Það má því segja að opnu húsin tókust vel og erum við strax farin að hlakka til næsta skiptis sem boðið er upp á opið hús.