Seldi hundasúrur til styrktar Rauða krossinum

16. nóv. 2007

Hekla María Arnardóttir er fjögurra ára snót á Akranesi sem lætur ekki sitt eftir liggja í baráttunni fyrir mannúðlegri og betri heimi. Í síðustu viku kom hún í  heimsókn á skrifstofu Rauða krossins á Akranesi, ásamt móður sinni, með fjárupphæð sem hún vildi að notuð yrði til þess að hjálpa börnum sem eiga bágt. En hvernig stendur fjögurra ára hnáta að fjáröflun fyrir mannúðarsamtök?

„Ég seldi hundasúrur á Írskum dögum í sumar. Fyrst tíndi ég fullt af hundasúrum í poka og seldi öllum sem voru í götugrillinu heima hjá mér. Það voru frekar margir sem keyptu hundasúrur, sjáðu ég er með fullan poka af peningum og meira að segja einn rauðan bréfpening!”

Þegar talið er upp úr pokanum kemur í ljós að Hekla María hefur aflað eittþúsund fjögurhundruð áttatíu og fimm króna með sölumennskunni, sem hlýtur að teljast nokkuð góður árangur.

„Þegar ég kom með peningana í sumar var lokað hjá ykkur. Þá geymdi ég þá bara í pokanum og kom aftur núna,” segir Hekla María og er greinilega fegin því að hafa loksins komið peningunum til skila. Enda segir mamma hennar að hún hafi verið ákaflega staðföst í því að Rauði krossinn skyldi fá söfnunarféð og ekki ljáð máls á því að kaupa dót fyrir peningana, eins og einhver stakk upp á.

Rauði krossinn sendir Heklu Maríu, sem er yngst þeirra fjölmörgu barna sem komið hafa færandi hendi til Rauða krossins á Akranesi, innilegar þakkir fyrir framlagið. Allt fé sem börn á Íslandi safna til félagsins er notað til þess að aðstoða börn sem eiga um sárt að binda einhverstaðar í heiminum, einsog Hekla María óskaði eftir með sitt framlag.