Ný heimasíða Akranesdeildar

4. des. 2007

Með þessari frétt opnar ný heimasíða Akranesdeildarinnar þar sem fjallað verður um það sem efst er á baugi hjá deildinni hverju sinni.

Það má reikna með því að síðan verði nokkuð lífleg í desember því mikið er framundan hjá deildinni á aðventunni.  Má þar nefna jólagjafasöfnun handa bágstöddum börnum á Akranesi og Hvalfjarðarsveit í samvinnu við félagsþjónustu sveitarfélaganna, föndurstund þar sem búin verða til jólakort sem send verða döprum og einmana með kærleikskveðju frá sjálfboðaliða í Rauða krossinum og árlega Friðargöngu á Þorláksmessu. 

Þá má ekki gleyma því að næstu tvær vikur munu leik- og grunnskólabörn streyma í Rauða kross húsið með skraut sem þau hafa föndrað fyrir Rauða krossinn. Þau koma í heimsókn, gera jólalegt hjá okkur, fá mandrínur og piparkökur og svolitla fræðslu um Rauða krossinn í leiðinni.

Það er sannarlega af nógu að taka  – fylgist með!!
www.redcross.is/akranesdeild