Sjálfboðaliðar Rauða krossins aðstoða Mæðrastyrksnefnd

13. des. 2007

Í gær kom hópur sjálfboðaliða saman í húsnæði Skagaleikflokksins, þar sem úthlutun Mæðrastyrksnefndar fer fram í desember á ári hverju til að undirbúa matarúthlutun sem verður á morgun, föstudaginn 14. desember. Þá verða sjálfboðaliðarnir til taks við úthlutunina sjálfa og hluti þeirra verður í útkeyrslu. Margir þeirra sem þiggja aðstoð eru aldraðir og öryrkjar sem eiga erfitt með að sækja matinn sjálfir. Þá eiga ekki allir bíl og þar sem sendingin er vel útilátin, þökk sé örlæti þeirra fjölmörgu aðila sem styrkja mæðrastyrksnefnd með framlagi, er ómögulegt annað en keyra pokana heim.

Reiknað er með að um 80 fjölskyldur  af öllum stærðum og gerðum leiti til Mæðrastyrksnefndar á Akranesi í  ár. Í gær höfðu borist ríflega fimmtíu umsóknir, en reynslan sýnir að margir leggja ekki inn umsókn heldur mæta óboðaðir  á úthlutunardaginn.


Guðfinna Ásta Kristjánsdóttir, Kristín Anna Erlingsdóttir og Vilborg Inga Guðjónsdóttir athuga hvort ekki sé rétt  raðað í pokana.