Styrkur til vinadeildarsamstarfs í Gambíu

18. des. 2007

Í gær veittu bæjaryfirvöld á Akranesi Rauða krossinum styrk að upphæð hundrað og fimmtíu þúsund krónur til verkefna í Gambíu. Styrkurinn er þannig til kominn að í stað þess að senda út jólakort til viðskiptavina Akraneskaupstaðar var ákveðið að veita þeim fjármunum sem til þess hefði verið kostað í verðugt mannúðarverkefni.

Deildir á Vesturlandi hafa um árabil átt í vinadeildarsamstarfi við Rauða kross deildina í Western Region í Gambíu. Íslensku deildirnar styðja systurdeild sína á ýmsan hátt, m.a. með þjálfun sjálfboðaliða sem veita fólki á svæðinu fjölbreytta aðstoð. Um fimm þúsund flóttamenn frá Senegal hafa flúið til vesturhluta Gambíu og njóta þeir liðsinnis sjálfboðaliða Rauða krossins.. Einnig er áhersla lögð á að aðstoða þá sem missa hús sín í bruna eða flóðum sem eru tíð í Gambíu.

Deildir á Vesturlandi hafa líka styrkt önnur verkefni Gambíska Rauða krossins, til dæmis kaup á stólum sem leigðir eru út við ýmis tilefni, rekstur matjurtargarðs og sögunarmyllu.

Sjálfboðaliðar Gambíska Rauða krossins eru mjög virkir og áhugasamir og leggja mikla vinnu í að aðstoða þá sem minnst mega sín og það er ekki nokkur vafi um að framlag Akraneskaupstaðar kemur í góðar þarfir.