112 dagurinn á Akranesi

13. feb. 2008

Mikið var um dýrðir í andyri verslunarhúss Bónuss, Apóteks Vesturlands og Tölvulistans mánudaginn 11.2 þegar Rauði krossinn á Akranesi og sjúkraflutningamenn vöktu athygli þeirra sem leið áttu um húsið á neyðarnúmerinu og mikilvægi skyndihjálpar.

Uppákoman hófst með stuttri athöfn kl. 14.00 þegar Skarphéðinn Magnússon, stjórnarmaður Akranesdeildarinnar, veitti Eiríki Kristóferssyni viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2007, en hann brást rétt og vel við í alvarlegu vinnuslysi í Norðuráli fyrir réttu ári síðan. Einnig tóku fulltrúar allra leikskóla og grunnskóla á Akranesi og í Hvaljfarðarsveit og Fjölbrautaskóla Vesturlands, á móti veggspjaldinu Getur þú hjálpað þegar á reynir.  Rauði kross Íslands í samvinnu við N1 gefur öllum skólum á landinu slíkt veggspjald. Að athöfn lokinni var boðið upp á blóðþrýstings- og blóðsykurmælingu, vegfarendum bauðst að spreyta sig við endurlífgun, börn fengu að skoða sjúkrabílana og skyndihjálpartöskur voru til sölu.

Uppákoman mæltist vel fyrir og mjög margir nýttu sér þjónustu sjúkraflutningamannanna.

Gestum og gangandi bauðst að láta mæla blóðþrýsting og blóðsykur og æfa endurlífgun. Börn á elstu deild í Garðaseli tóku við veggspjaldinu Getur þú hjálpað þegar á reynir fyrir hönd skólans.