Aðalfundur á Akranesi

4. mar. 2008

Aðalfundur Rauða krossins á Akranesi var haldinn mánudaginn 3. mars. Nokkrar breytingar urðu í stjórn deildarinnar þar sem Skarphéðinn Magnússn og Lárus Guðjónsson gáfu ekki kost á sér til frekari stjóranarsetu. Svala Hreinsdóttir var endurkjörin og nýir í stjórn voru kjörnir Þór Birgisson og Zbigniew Harasimczuk sem aðalmenn og Ásgeir Sveinsson varamaður. Aðrir aðilar í stjórn eru Sveinn Kristinsson, formaður, Sólveig Reynisdóttir, Guðrún Aðalsteinsdóttir, Shyamali Ghosh og til vara Alda Vilhjálmsdóttir og Anna Sólveig Smáradóttir.

Um leið og þeim Skarphéðni og Lárusi var þakkað fyrir þeirra sjálfboðna starf í þágu deildarinnar voru nýir stjórnarmenn boðnir velkomnir.

Að hefðbundnum aðalfundarstörfum loknum veitti formaður Sveinsínu Árnadóttur viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf að verkefni heimsóknavina, en hún hefur verið hópstjóri allt síðan verkefnið fór af stað árið 1974. Því næst flutti Hólmfríður Garðarsdóttir, sendifulltrúi, fróðlegt og skemmtilegt erindi um starf í Mósambík. Jafnframt fjallaði Þóra Kristín Ásgeirsdóttir svæðisfulltrúi á Höfuðborgarsvæði um Göngum til góðs 2008 og viðbragðsáætlun við fuglaflensufaraldri.

Fundurinn var vel sóttur og mæltust innlegg framsöguaðila vel fyrir.