Endurhæfingarklúbbur á Akranesi

27. mar. 2008

Í gær var undirritað samkomulag  um rekstur endurhæfingarklúbbs fyrir öryrkja á Akranesi. Um þriggja ára tilraunaverkefni er að ræða og að því standa Rauði krossinn á Akranesi, Akraneskaupstaður, Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Vesturlandi og Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi - með stuðningi frá Hvalfjarðarsveit og ýmsum fyrirtækjum og stofnunum. Stofnuð verður fjögurra manna verkefnisstjórn, sem hafa mun umsjón með starfseminni, skipuð fulltrúum þeirra aðila sem að endurhæfingarklúbbnum standa. Við undirskriftina var jafnframt tilkynnt að Sigurður Sigursteinsson, iðjuþjálfi, hefði verið ráðinn forstöðumaður klúbbsins.

Um leið og samkomulagið var undirritað skrifuðu Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, og Guðjón Brjánsson, forstjóri Sjúkrahússins og heilsugæslunnar á Akranesi, undir samning þess efnis að ráðuneytið leggur klúbbnum til 2.5 milljónir á ári næstu þrjú árin. Undir samskonar samning undirrituðu Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, og Magnús Þorgrímsson, forstöðumaður Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Vesturlandi. 

Akranesdeildin leggur til verkefnisins 300.000,- krónur á ári næstu tvö ár. Svæðissjóður Á Vesturlandi leggur til 500.000,- krónur á ári næstu þrjú árin, samtals 1.5 milljónir króna, sem sérstaklega eru ætlaðar í ýmsa útgáfustarfsemi sem félagar klúbbsins munu vinna í því skini að kynna klúbbinn og koma á framfæri um allt Vesturland.

Í samingnum segir að klúbbfélagar munu, í samráði við starfsmann og aðra fagaðila sem að klúbbnum standa, vinna að því að skapa batahvetjandi stuðningsúrræði fyrir fólk með geðraskanir, brjóta félagslega einangrun, auka færni til samskipta og daglegra starfa og virkni í samfélaginu almennt. Húsnæðið sem hýsa mun klúbbinn er nýstandsett og glæsilegt, staðsett í hjarta gamla bæjarins við Akratorg og mun án efa blómstra þar.