Rauði krossinn í Hálsaskógi

16. apr. 2008

Í morgun heimsóttu tveir hópar barna í 5.og 6. bekk Grundaskóla Rauða kross húsið og fengu fræðslu um sögu og markmið Rauða krossins.
Heimsóknin er liður í valáfanga um mannúða- og hjálparstarf sem Hildur Karen Aðalsteinsdóttir hefur kennt þeim í vetur. Hóparnir komu færandi hendi með veggspjöld sem þeir unnu út frá þemanu: Hvernig get ég hjálpað?
Krakkarnir voru mjög áhugasamir og þekktu greinilega vel til Rauða krossins og starfs félagsins að mannúðarmálum út um allan heim. Líflegar umræður spunnust um möguleika hvers og eins til þess að áhaf árhif til góðs í samfélaginu og var niðurstaðan sú að áhrifaríkast væri að sýna mannúð öllum þeim sem við mætum á lífsleiðinni. Ef allir sýndu ævinlega mannúð væri ekki þörf á alþjóðlegum hjálparsamtökum á borð við Rauða krossinn.
Í spjallinu kom einnig fram sú hugmynd að til væri Rauða kross deild í Hálsaskógi, sem þeir Marteinn skógarmús, Lilli klifurmús og Bangsapabbi stofnuðu á sínum tíma í þeim tilgangi að byggja betra samfélag í skóginum.  Markmiðin þrjú sem sjálfboðaliðar í þeirri deild vinna eftir eru þessi:
1. Grein: Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.
2. Grein: Ekkert dýr má borða annað dýr.
3. Sá sem er latur og nennir ekki að afla sér matar, má ekki taka mat frá öðrum.
Það var samdóma álit krakkanna að í samfélagi þar sem þessi ákvæði væru virt í hvívetna gætu allir notið sín og liðið vel.