Rauði krossinn áberandi á málþingi um innflytjendamál

17. apr. 2008

Í síðustu viku efndi Samband sunnlenskra sveitarfélaga til málþings um málefni innflytjenda í Þorlákshöfn.
Í upphafi þingsins kynnti Hildur Jónsdóttir nýja framkvæmdaáætlun stjórnvalda í málefnum innflytjenda. Fyrri hluti þingsins var annars helgaður umræðu um töluegar upplýsingar og ýmis félagsleg verkefni sem lúta að stuðningi við innflytjendur, t.d. ungbarnavernd og  atvinnumál. Þá greindi Unnur Dís Skaptadóttir mannfræðingur frá rannsókn sem hún vinnur nú að ásamt fleiri aðilum undir yfirskriftinni Innflytjendur í þremur sveitarfélögum: réttindi þátttaka og viðurkenning.
Síðari hluti námskeiðsins fjallaði um verkefni með innflytjendum í  sveitarfélögum viðsvegar á landinu . Rauði krossin lék stórt hlutverk í þeirri dagsrká, enda margar deildir að vinna frábært starf með innflytjendum.  Berglind Ósk Agnarsdóttir,starfsmaður Rauða krossins í Fjarðarbyggð, fjallaði um samstarf deilda á Austurlandi og bæjaryfirvalda í málefnum innflytjenda. Bryndís Friðgeirsdóttir, svæðisfulltrúi á Vestfjörðum ræddi um aðkomu almennings að málefnum innflytjenda, en hún er einn af stofnendum Róta, félags áhugafólks um fjölmenningu. Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Akranesdeildarinnar,  sagði frá verkefni Akranesdeildarinnar með innflytjendum, samstarfinu við Akraneskaupstað og starfi ný ráðins verkefnastjóra innflytjendamála.  Í máli Aðalsteins Baldurssonar, frá Verkalýðsfélagi Húsavíkur, kom fram að Rauði krossinn hefur óskað eftir formlegri aðkomu að verkefninu sem félagið rekur í samvinnu við sveitarfélög á svæðinu.
Þá má einnig geta þess að Jóhanna Róbertsdóttir, svæðisfulltrúi á Suðurlandi og Suðurnesjum ásamt Ragnheiði Ágústsdóttur, starfsmanni hjá Árnesingadeild, og Krystynu Jabluszewsku, verkefnisstjóra Akranesdeildar, kynntu fjölbreytt verkefni Rauða krossins í deildum víða um land.
Málþingið var vel sótt og í lok þess kom fram ósk um að SSAS  tæki að sér að skipuleggja í framhaldinu vinnufund með lykilfólki í málaflokknum í sveitarfélögum á Íslandi.