Vorfundur heimsóknar- og sjúkravina

22. apr. 2008

Í gær hittust heimsóknar- og sjúrkavinir á árlegum vorfundi sínum á kaffihúsinu Skrúðgarðinum.  Nokkrar b reytingar verða á starfi hópsins á árinu þar sem Sveinsína Árnadóttir, sem verið hefur hópstjóri mörg undanfarin ár, lætur af embætti. Hún mun þó halda ótrauð áfram sem heimsóknarvinur.
Á fundinum ávarpaði Sveinn Kristinsson, formaður Akranesdeildarinnar, sjúkra- og heimsóknarvini og gerð grein fyrir því hvernig haldið verður utan um hópinn fram á haustið. Þá stendur til að fara í átak til að fjölga sjálfboðaliðum í heimsóknarþjónustunni og gera nokkrar breytingar á rekstri verkefnisins.
Saga sjúkravina á  Akranesi er um margt merkileg, en til verkefnisins var stofnað að frumkvæði Þóru Einarsdóttur, sem jafnan er kennd við Vernd, árið 1976. Sveinsína hefur verið hluti af hópnum frá upphafi, eða í þrjátíu og tvö ár. Til merkis um þakklæti deildarinnar var Sveinsínu fært úr að gjöf og viðurkenningarskjal fyrir óegingjarnt frumkvöðlastarf að mannúðarmálum á Akranesi um áratugaskeið.