Ársskýrsla 2007

23. apr. 2008

Á starfssvæði svæðisskrifstofu Vesturlands starfa sjö deildir; Akranesdeild, Borgarfjarðardeild, Búðardalsdeild, Grundarfjarðardeild, Snæfellsbæjardeild, Stykkishólmsdeild og V- Barðastrandarsýsludeild. Formaður svæðisráðs fyrri hluta árs var Finnbjörn Gíslason en Sæmundur Jóhannsson tók við sem formaður í september. Á fyrrihluta árs, eða til 1. september var svæðisskrifstofan til húsa á Akranesi og gegndi Jóhanna Ólafsdóttir starfi svæðisfulltrúa það tímabil. Finnbjörn Gíslason tók við starfi svæðisfulltrúa í september og var svæðisskrifstofan flutt í Búðardal. Finnbjörn gegndi starfinu til ársloka.

Rauða kross deildirnar á Vesturlandi sinna hefðbundnum Rauða kross verkefnum eins og neyðarvörnum og neyðaraðstoð til einstaklinga utan almannavarnarástands. Auk þess eru ýmis verkefni í gangi í samræmi við þarfirnar á starfssvæði hverrar deildar. Nokkur svæðisverkefni eru í gangi s.s forvarnarverkefni á Snæfellsnesi, sumarbúðir í Holti, vinadeildarsamstarf, málefni geðfatlaðra og námskeiðahald.

Sumarbúðir
Rauða kross deildir á Vesturlandi koma að sumarbúðum í Holti á hverju ári í samvinnu við Svæðisskrifstofu Vesturlands. Í ágúst voru búðirnar starfræktar í heila viku samfellt. Deildir koma að verkefninu bæði með fjárstuðningi og sjálfboðaliðum.
 
Vinadeildarsamstarf
Vinadeildarsamstarf er á milli Vesturlands og Western Division í Gambíu. Árið 2006 fóru þrír sjálfboðaliðar svæðisins í vinnuferð til Gambíu. Tilgangur ferðarinnar var að skoða aðstæður deildarinnar, sjá hvað hægt er að gera til að hjálpa þeim og hvað þeir geta kennt okkur. Í framhaldinu var ákveðið að standa fyrir söfnun nauðsynja og senda út. Alar deildir á svæðinu tóku þátt í söfnuninni og var sendur fullur gámur af fatnaði, hjólum, skóladóti og ýmsu fleiru út til vinadeildarinnar í Gambíu.

Neyðarvarnaráætlanir
Þrjár deildir unnu neyðarvarnaráætlanir fyrir sitt svæði; Akranesdeild, Borgarfjarðardeild og Búðardalsdeild.

Heimsóknaþjónusta
Heimsóknavinir eru vaxandi verkefni. Þær deildir sem ekki eru þegar byrjaðar á verkefninu hafa sett það á áætlun. Haldið var námskeið í Búðardalsdeild fyrir þá sem eru að heimsækja geðfatlaða.

Skyndihjálp
Flestar deildir tóku þátt í 112 deginum þann 11.2. og kynntu skyndihjálp, hlutverk deildanna í neyð og fleira. Deildir útvega námskeið í skyndihjálp fyrir atvinnulífið, skóla og ákveðna hópa samfélagsins.

Málefni innflytjenda
Svæðasamatarf í innflytjendamálum var þróað. Unnið var að gerð þjónustusamnings milli Borgarfjarðardeildar og Borgarbyggðar. Öflugt starf í þágu innflytjenda fer fram í Akranesdeild og vaxandi áhersla er á innflytjendamál í Borgarfjarðardeild.