Samvinna Akranes- og Borgarfjarðardeilda

2. maí 2008

Fulltrúar Akranes- og Borgarfjarðardeildar hittust í síðustu viku í þeim tilgangi að skoða möguleika á því að efla samstarf og samvinnu deildanna í þeim verkefnum sem báðar deildir vinna að. Ákveðið var að gera tilraun með að samkeyra námskeið og fræðslu fyrir sjálfboðaliða.

Deildirnar munu, í samstarfi við framhaldsskóla á svæðinu, Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi, Vinnumálastofnun og fleiri aðila, sækja sameiginlega um fjármagn í sjóð sem ætlaður er til að fjármagna verkefni sem mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar í sjávarútvegi. Þau verkefni sem sótt verður um fjármagn til snúa annars vegar að innflytjendum og hins vegar að þeim sem þurfa á atvinnulegri endurhæfingu að ræða. Þar væri hægt að nýta endurhæfingarklúbbinn sem nýlega tók til starfa á Akranesi en er ætlað að þjóna öllu Vesturlandi. Svæðissjóður styrkir klúbbinn með árlegu framlagi.