Sveinsína hlaut viðurkenningu á aðalfundi

20. maí 2008

Aðalfundur Rauða kross Íslands var haldinn í Kópvogi laugardaginn 19. maí síðast liðinn. Á fundinum var Anna Stefánsdóttir kjörin formaður Rauða kross Íslands.

5 sjálfboðaliðar hlutu viðurkenningu fyrir framlag til mannúðarstarfa, þar á meðal Sveinsína Andrea Árnadóttir sem starfað hefur sem sjúkra- og heimsóknarvinur með Akranesdeildinni í yfir þrjátíu ár.
Sveinsína, eða  Bíbí einsog hún er jafnan kölluð, hóf sjálfboðaliðastörf fyrir Akranesdeild 1974 og hefur í mörg ár gengt stöðu hópstjóra sjúkra – og síðan heimsóknarvina. Hún var ein af stofnfélögum þessa hóps sem stofnaður var 1999, sem hafði það að markmiði að sinna sjúkum og einmanna. Í fyrstu kallaði hópurinn sig sjúkravini. Liður í starfinu var að standa fyrir félagsstarfi með öldruðum og ýmiskonar annarri starfssemi í þágu aldraðra og sjúkra. Þau ráku í nokkur ár verslun á Dvalarheimilinu Höfða.  Fullyrða má að þessi hópur heimsóknarvina sé sá fyrsti sem stofnaður var innan Rauða kross Íslands en heimsóknavina-verkefnin hafa verið áhersluverkefni innan hreyfingarinnar í nokkur ár. Hér er því um frumkvöðlastarf að ræða. Sveinsína hefur allt frá upphafi verið stjórnandi þessa hóps sem í hafa verið um 20 – 25 manns. Sveinsína lét af  því embætti 20. febrúar síðastliðin en starfar ennþá sem heimsóknarvinur. Mörg önnur störf hefur Sveinsína unnið fyrir Rauða kross deildina á  Akranesi. Ef kallað er eftir sjálfboðaliðum er Sveinsína mætt.

Stjórn g starfsfólk Akranesdeildar óskar Bíbí innilega til hamingju með viðurkenninguna, enda er hún vel að henni komin.

Á aðalfundinum kynntu Skagamenn innflytjendaverkefni deildarinnar í fjölmennri málstofu,en fjöldi verkefna með innflytjendum víðsvegar um landið voru kynnt á fundinum.
Sunnudaginn 18. Maí var svo haldið málefnaþing um þróunarsamvinnu, þar sem fjallað var um aðferðafræði Rauða krossins og aðkomu að þróunarverkefnum.

Aðalfundurinn og málþingið voru í alla staði vel heppnað og greinilegt að gróskan iog krafturinn innan hreyfingarinnar er mikil.