Krakkarnir í Stykkishólmi styrkja Haítí

11. okt. 2011

Krakkarnir í 5. bekk grunnskólans í Stykkishólmi hafa ekki slegið slöku við í samfélagsfræðitímunum hjá kennaranum sínum, henni Sigríði Ólöfu Sigurðardóttur. Á síðasta skólaári lærðu þau um fréttir og fjölmiðla og fylgdust af miklum áhuga með hjálparstarfinu á Haítí.

Í kjölfarið fóru krakkarnir út í útgáfu á skólablaði. Þau bjuggu sjálf til auglýsingar í blaðið og seldu þremur fyrirtækjum á staðnum. Blaðið var síðan selt áhugasömum og ágóðinn af öllu saman var 34.527 krónur sem þau ákváðu að gefa til hjálparstarfs Rauða krossins á Haítí.

María Guðmundsdóttir formaður Stykkishólmsdeildar Rauða krossins heimsótti krakkana og spjallaði við þau þegar þau afhentu henni peningana.