Íslendingarnir strax teknir í nám í arabískum dönsum

Kolbein Óttarsson Poppé blaðamann á Fréttablaðinu

14. sep. 2008

Ánægðar en þreyttar flóttakonur hittu stuðningsfjölskyldur sínar á Akranesi í gær. Börnin kynntust nýjum heimkynnum og ekki síður leikföngum. Ein konan byrjaði strax að kenna arabíska dansa. Kolbeinn Óttarsson Proppé blaðamaður skrifaði greinina sem birtist í Fréttablaðinu 10. september.

Flóttakonurnar átta, sem komu til Akraness aðfaranótt þriðjudagsins, voru ánægðar með nýju heimkynnin sín. Að baki áttu þær heilmikið ferðalag ásamt börnum sínum en þær hafa í raun verið á ferð í þrjá daga.

Heilmikið var um að vera hjá nýjum íbúum Akraness strax fyrsta daginn. Leysa þurfti úr ótal smáatriðum og var starfsfólk Rauða krossins og Akraneskaupstaðar á þönum með þeim. Klukkan 16 hittu palestínsku fjölskyldurnar þær íslensku sem munu verða þeim til stuðnings.

Elínborg Guðmundsdóttir og Kjartan Þorsteinsson, maður hennar, eru meðal stuðningsfjölskyldnanna og sögðu Fréttablaðinu í síðustu viku frá undirbúningnum fyrir komu fólksins. Elínborg segir gærdaginn hafa verið spennandi.

„Ég var bara eins og hálf manneskja í vinnunni allan daginn og beið með fiðrildi í maganum eftir að hitta Linu og börnin hennar. Það var svo æðislega gaman að taka í höndina á henni og hitta hana augliti til auglitis í stað þess að horfa bara á hana á mynd," segir Elínborg.

Lina á tvo drengi, tíu og sex ára, og þriggja ára stúlku. Þrátt fyrir langt og strangt ferðalag vaknaði fjölskyldan klukkan átta í nýjum heimkynnum og fór í göngutúr. „Þau voru búin að ganga niður að Langasandi og leist bara vel á sig. Þetta eru greinilega drífandi konur með bein í nefinu og ætla sér að gera það besta úr aðstæðum sínum hér."

Fundurinn í dag fór fram í félagsmiðstöð barna og unglinga, Þorpinu, og þar var margt nýtt að sjá fyrir börnin. „Litla stelpan var nú orðin uppgefin og svaf, en strákarnir gátu ekki setið kyrrir. Þeir hlupu um allt og skoðuðu billjarð- og borðtennisborðin, tölvurnar og allt það dót sem þeir hafa aldrei séð áður. Við ákváðum að vera ekki að trufla þá og leyfa þeim bara að njóta sín."

Þrátt fyrir ferðaþreytu voru allir mjög ánægðir með að vera komnir til landsins. Sumar kvennanna voru strax byrjaðar í skipulaginu. „Við erum öll með ensk/arabískar orðabækur og ætlum að vera dugleg að læra málið og þær íslenskuna. Þá vildi ein konan strax fara að kenna okkur arabíska dansa og kom með tónlist. Ætli hún verði ekki bara með dansnámskeið hér í vetur," segir Elínborg og hlær.kolbeinn