Fjölskylda hefur nýtt líf á Akranesi

Andra Karl blaðamann á Morgunblaðinu

16. sep. 2008

TÖLUVERÐUR umgangur var í nýrri íbúð Fatin Alzaiz þegar blaðamaður bankaði upp á, nokkrum dögum eftir að hún kom hingað til lands ásamt tveimur sonum sínum. Andri Karl blaðamaður tók saman greinina sem birtist í Morgunblaðinu 13. september.

Meðlimur stuðningsfjölskyldunnar sat í góðu yfirlæti yfir kaffibolla og ungur maður úr annarri flóttafjölskyldu var í heimsókn. Ekki bar á öðru en litla fjölskyldan hefði komið sér vel fyrir í fjölbýlishúsi á Akranesi og langt og strangt ferðalag frá Írak því sem næst gleymt.

Fjölskylda Fatin er frá Palestínu en sjálf fæddist hún í Bagdad. Þar giftist hún fyrrverandi eiginmanni sínum og átti með honum tvo drengi sem nú eru sextán og þrettán ára. Þau ákváðu að yfirgefa Bagdad eftir að eldri sonurinn slasaðist á fæti í sprengjuárás og var rænt nokkru síðar. Litla fjölskyldan hafðist við í flóttamannabúðunum alræmdu, Al-Waleed, í nærri eitt og hálft ár.

Var neitað um hæli í Jórdaníu
„Þegar ég komst að því að möguleiki væri á að komast burtu með börnin mín varð ég fyrst óttaslegin,“ segir Fatin í gegnum túlk. „Þegar ég svo fékk upplýsingar um Ísland komst lítið annað að en finna börnunum mínum betri framtíð. Minna hugsaði ég um hvað biði mín.“

Fatin segir hugann oft reika til flóttamannabúðanna en þar á hún t.a.m. eina systur. „Ég talaði við hana í síma á þriðjudaginn en við gátum lítið sagt þar sem grétum svo mikið.“

Segja má að líf Fatin undanfarin ár hafi verið ein þrautaganga. Árið 2003 yfirgaf hún Bagdad og dvöldu synir hennar hjá föður sínum á meðan. Þá stóðu landamæri Sýrlands og Jórdaníu henni opin. Fatin gerði tilraun til að sækja um hæli fyrir sig og strákana í Jórdaníu en án árangurs. Hún sneri því aftur til Bagdad en taldi fjölskyldu sinni ekki vært eftir að eldri syninum var rænt en þar sætti hann illri meðferð áður en honum var sleppt.

Enduðu í Al-Waleed

Lífið í flóttamannabúðunum, sem eru á landamærum Íraks og Sýrlands, var helvíti líkast. Þegar heitast verður fer hitinn allt upp í fimmtíu gráður á Celsíus og á veturna er loftið afskaplega þurrt og kalt og fer undir frostmark.

„Dagurinn fór í að reyna nýta sér allt það sem boðið er upp á, sækja vatn sem skammtað er. Tímanum var varið í að þrauka daginn,“ segir Fatin en fjölskyldan bjó saman í einu tjaldi. Ef þörf var á meira vatni en skammtað var, s.s. til hreinlætis, þurfti að greiða fyrir það sérstaklega. Það eru því mikil viðbrigði að fá gnægð hreins og tærs vatns beint úr krananum.

Fatin segir að ótrúlega vel gangi að venjast hitamuninum, enda séu þau í raun öllu vön. „Veðrið skiptir engu máli á meðan ég hef þak yfir höfuðið. Ég þarf ekki annað skjól.“

Undanfarnir dagar hafa farið í að hvíla lúin bein og átta sig á nýju umhverfi. Þar skipta stuðningsfjölskyldurnar sköpum og hafa þær verið iðnar við að fara með flóttafólkið í skoðunarferðir um Akranes, í matvörubúðir og fleira í þeim dúr. Fatin ber stuðningsfjölskyldu sinni afar vel söguna og segist raunar afar þakklát fyrir góðar viðtökur, hvar sem hún fer. Hún leynir jafnframt ekki vonbrigðum sínum með Arabaþjóðirnar sem hún hélt að myndu bjarga henni og sonunum úr flóttamannabúðunum.

Þegar talið berst að framtíðinni segist Fatin líta hana björtum augum. „Palestínumenn hafa gegnum árin ótal sinnum þurft að aðlagast ókunnum þjóðum og alltaf getað það. Þeir eru félagslyndir og opnir fyrir nýjum hlutum.“ Hún segir ekkert því til fyrirstöðu að læra tungumálið og hlakkar til að fara út á vinnumarkaðinn enda ekki vön því að sitja auðum höndum.

Fatin hafði þegar lært fyrsta orðið og kvaddi með því að segja bless.

Mikið fyrir tölvur og reiðhjól

SYNIR Fatin Alzaiz eru sextán og þrettán ára. Þeir heita Mohammad og Alaa Al-Shahin, og taka fjölskyldunafn föður síns. Piltarnir eru báðir mjög ánægðir með að vera komnir til Íslands, þótt að sjálfsögðu verði þeim hugsað til vina sinna í Írak.

Mohammad hefur enn ekki náð sér eftir að hann slasaðist á fæti í sprengjuárás í Bagdad. Hann fór í aðgerð í Al-Waleed, og er á batavegi.

Jafnframt hafði mikil og sérstaklega sálræn áhrif á hann þegar honum var rænt og segir móðir hans að Mohammad hafi þjáðst af þunglyndi á eftir. Brúnin hafi hins vegar lyfst á honum eftir komuna til Íslands.

Alaa er öllu félagslyndari og ræddi m.a. í löngu máli um hversu mikið hann langar í reiðhjól. Einnig hefur hann mikinn áhuga á íþróttum, og þá helst knattspyrnu.

Báðir hyggja þeir á nám þegar fyrstu aðlögun lýkur og grunnnámskeiði í íslensku. Mohammad langar að læra eitthvað tengt tölvum en Alaa hefur ekki enn lagt línurnar um hvað hann langar að gera í framtíðinni.

Í hnotskurn
» Al-Waleed-flóttamannabúðirnar eru í miðri sandeyðimörk á landamærum Íraks og Sýrlands.
» Þar hafast við um 1.400 manns sem verja hverjum degi í að bíða úrlausnar og halda sér á lífi.
» Flóttamannanefnd vann að vali fjölskyldnanna sem boðið var hæli hér landi í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.