Gengið til góðs á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit.

6. okt. 2008

Laugardaginn 4. október var gengið til góðs á Akranesi og Hvalfjarðarsveit einsog í öðrum bæjum og sveitum á Íslandi. Þrátt fyrir að um  það bil helmingi færri hafi gengið nú en fyrir tveimur árum er ekki hægt að segja annað en stemnigin fyrir gönguna hafi verið góð.  Sjúkravinir stóðu vaktina yfir vöfflujárnum og sáu um að enginn færi svangur af stað. Patrycja Szalkowicz, kennari í Tónlistaskólanum á Akranesi, og tveir nemendur hennar, léku þrjú lög á þverflautur svona til þess að keyra upp göngugleðina í mannskapnum. Áberandi var hversu góð þáttaka unglinga á Skaga og í Hvalfjarðarsveit var, en nemendur í tíunda bekk Grundaskóla, Heiðarskóla og Brekkubæjarskóla  fjölmenntu í gönguna.
Forseti Íslands hóf þátttöku sína í söfnuninn á Akranesi og hitti sjálfboðaliða, stjórn deildarinnar, starfsfólk og flóttafjölskyldurnar sem fluttu á Akranes frá Írak í byrjun síðasta mánaðar og þáði ljúfar veitingar. Palestínksu konurnar sungu fyrir forsetann og aðra gesti og dönsuðu palestínskan dans við mikinn fögnuð vistaddra.
Laugardagurinn 4.október var því mjög ánægjulegur dagur hjá Akranesdeildinni.