Grundaskóli styrkir börn í Malavaí.

4. jan. 2008

Nemendur og starfsfólk Grundaskóla afhentu Rauða krossinum á dögunum 318.000 króna framlag til styrktar börnum í Malaví. Þessi glæsilega upphæð  var afrakstur jólasöfnunar sem hrundið var af stað í stað þess að gefa hefðbundnar jólagjafir innan skólans.

Það var Lóa Guðrún Gísladóttir, fulltrúi nemenda í Grundaskóla, sem afhenti Sveini Kristinssyni, formanni Akranesdeildarinnar söfnunarféð.  Í ávarpi sem hún flutti af því tilefni kom fram að þetta er í þriðja sinn sem Grundaskóli styður með þessum hætti við uppbyggingarstarf í Malaví .

Rauði krossinn sendir nemendum og kennurum í Grundaskóla hugheilar þakkir fyrir framtakið. Það er ekki nokkur vafi á því að peningarnir koma í góðar þarfir. Rauði kross Íslands styður börn sem þjást vegna alnæmis í Malaví. Mörg þeirra hafa misst foreldra sína úr sjúkdómnum og þau fá ýmiss konar aðstoð svo að þau geti haldið áfram skólagöngu og komist til manns.

Foreldrar, sem hafa veikst fá aðstoð (heimahlynningu og heimsóknir sjálfboðaliða) og þeir eru studdir til að ganga frá málum barna sinni áður en þeir falla frá (ganga frá erfðamálum, húsi og landskika, finna þeim ný heimili, upplýsa þau um uppruna sinn o.s.frv.).

Nú þegar hafa verið reistar þrjár félagsmiðstöðvar í Nkalo í Chiradzulu. Fé, sem safnast til að styðja börn í Malaví, er varið til að búa þessar félagsmiðstöðvar húsbúnaði. Í félagsmiðstöðunum fá börnin mat, kennslu, stuðning við heimanám, og einnig félagslega og andlega hvatningu. Einnig er séð til þess að þau geti haldið áfram skólagöngu (skólagjöld eru greidd, skólabúningar og námsbækur)