Þjóðahátíð á Akranesi
Akranesdeild Rauða krossins tók þátt í Þjóðahátíð í samvinnu við SONI síðustu helgi. Hátíðin er haldin í annað sinn og var liður í Vökudögum, menningarhátíð Akraness, sem haldin er fyrstu helgina í nóvember ár hvert.
Það má með sanni segja að þjóðahátíðin hafi slegið í gegn á Akranesi og Skagamenn fjölmenntu í íþróttahúsið á Jaðarsbökkum þar sem hátíðin var haldin til þess að kynna sér menningu og hefðir nágranna sinna og vina af erlendum uppruna.
Íbúar á Akranesi eru frá ríflega tuttugu löndum og á annað hundrað manns af erlendum uppruna tók þátt í hátíðinni sem var hin veglegasta. Boðið var upp á fjölbreytt skemmtiatriði allan daginn, m.a. búlgarska þjóðdansa, blústónlist, íslensk, rússnesk, írsk og pólsk þjóðlög, philipínska og palestínska dansa og gamanmál.
Á meðan hátíðin stóð yfir hékk jafnframt uppi í íþróttahúsinu sýningin Allt heimsins fólk – kynning á íbúum af erlendum uppruna.
Eins og fyrr segir tókst hátíðin mjög vel og stefnt er að því að endurtaka leikinn að ári.