Starfið á árinu 2008

12. jún. 2009

Á starfssvæði svæðisskrifstofu Vesturlands starfa sjö deildir;
Akranesdeild, Borgarfjarðardeild, Búðardalsdeild, Grundarfjarðardeild, Snæfellsbæjardeild, Stykkishólmsdeild og V- Barðastrandarsýsludeild.

Allar deildir eiga aðild að svæðisráði. Formaður svæðisráðs er Ragnhildur Kristín Einarsdóttir. Skrifstofa svæðisfulltrúa er í húsnæði Akranesdeildar að Skólabraut 25a. Svæðisfulltrúi er Kristján S. Bjarnason.

Svæðisfundur haldinn í Stykkishólmi 4. maí 2008

Mættir voru auk svæðisfulltrúa 11 manns frá; Akranessdeild, Borgarnessdeild, Snæfellsbæjardeild, Grundarfjarðardeild og Stykkishólmsdeild. Á fundinum fór Þóra Kristín Ásgeirsdóttir svæðisfulltrúi höfuðborgarsvæðisins yfir stöðu neyðarvarnamála á Vesturlandi.

Samþykkt var á fundinum að gert yrði átak í neyðarvarnamálum á Vesturlandi það sem eftir lifði árs. Lögð var áhersla á að neyðarvarnaráætlanir deilda á rafrænu formi og önnur þau mál sem að neyðarvörnum snúa verði komin í gott horf á vormánuðum 2009. Á haustmánuðum voru neyðararvarnaráætlanir margra deilda uppfærðar og hafist handa við að koma þeim á vef Rauða krossins.

Endurhæfingarhúsið HVER
Endurhæfingarhúsið HVER var formlega opnað með viðhöfn á vordögum 2008. Um er að ræða samvinnuverkefni Akranesdeildar Rauða krossins, Akranesbæjar, Sjúkrahúss og heilsugæslu Akraneskaupstaðar og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi.

Var boðið upp á endurhæfingarúrræði ýmis konar fyrir öryrkja og þá sem dottið hafa út úr hlutverkum sínum í lífinu vegna veikinda, slysa og hvers kyns annarra áfalla. Svæðisráð Rauða krossins á Vesturlandi og forráðamenn HVER hafa átt samstarf um leiðir til að auðvelda öllum íbúum á Vesturlandi sem best aðgengi að þeim úrræðum sem þar er boðið upp á en markmiðið er að allir íbúar á Vesturlandi hafi aðgang að þeim fagaðilum sem að rekstri HVER koma.

Sumarbúðir fyrir fatlaða

Deildir Rauða krossins á Vesturlandi taka virkan þátt í rekstri sumarbúða fyrir fötluð börn í Holti í Borgarfirði, ýmist hver fyrir sig eða í gegnum svæðissamstarf. Svæðisráð styrkti starfsemi sumarbúðanna með beinu fjárframlagi og eins tók hver deild á móti einum hópi eina dagsstund þar sem bryddað var upp á ýmsu til dægrastyttingar fyrir krakkana.

Svæðisráð tekur þátt í rekstri sumarbúða fyrir fatlaða einstaklinga að Löngumýri í Skagafirði og í Stykkishólmi, en svæðisráð Rauða kross Íslands á Norðurlandi stendur fyrir rekstri þeirra sumarbúða í samvinnu við svæðisráð annarra svæða á landinu.  

Svæðisfundur á Akranesi
Svæðisfundur deilda á Vesturlandi var haldinn 27. september. Mættir voru fulltrúar allra deilda á Vesturlandi. Að auki mættu Kristján Sturluson framkvæmdarstjóra Rauða krossins, Sigurður Þór Sigursteinsson frá HVER, Jón Þorsteinn Sigruðsson formaður URKÍ og Arnar Benjamín Kristjánsson verkefnastjóri hjá URKÍ.

Auk venjulegra fundarstarfa kynnti Kristján Sturluson nýsamþykktar siðareglur Rauða krossins á Íslandi og Sigurður Þór Sigursteinsson kynnti starfsemi HVER. Þeir Jón Þorsteinn og Arnar Benjamín kynntu svo að lokum starfsemi URKÍ og lýstu fyrir fundargestum framgangi „Á flótta“ en það er leikur á vegum URKÍ sem gengur út á að gefa þátttakendum kost á að fá nasasjón af þeim ömurlegu aðstæðum, hremmingum og niðurbroti á mannlegri reisn sem flóttamenn upplifa.

Vinadeildarsamstarf
Svæðisráð Rauða krossins á Vesturlandi á í vinadeildasamstarfi við Western Region í Gambíu. Árið 2008 hefur svæðisráð staðið straum af kostnaði við þjálfun sjálfboðaliða í Gambíu og í Snæfellsbæ hefur verið í undirbúningi að taka upp skólasamskipti milli grunnskóla á Snæfellsnesi og grunnskóla í Gambíu.

Áætlað er að byrja með einn bekk í hvoru landi til reynslu og er ráðgert að kynna verkefnið fyrir væntanlegum þátttakendum á Íslandi í mars 2009 (í tengslum við heimsókn sjálfboðaliða frá Gambíu til Íslands í febrúar og mars 2009).

Gengið til góðs
Allar deildir á Vesturlandi tóku þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs sem fram fór þann 4. október 2008. Almennt var góð þátttaka sjálfboðaliða hjá öllum deildum en þó talsvert færri og safnaðist minna en árið 2006.

Eldvarnaræfing á SHA – rýmingaræfing
Bruna- og rýmingaræfing var haldin á sjúkrahúsinu á Akranesi þann 17. október. Akranesdeildin, slökkvilið, sjúkraflutningamenn, lögregla, björgunarsveit og starfsfólk SHA stóðu sameiginlega að æfingunni.

Akranesdeildin opnaði fjöldahjálparstöð í Brekkubæjarskóla og fjöldahjálparstjórar frá Akranesdeild og Brekkubæjarskóla tóku á móti rúmlega 30 „sjúklingum“ í misjöfnu ástandi frá sjúkrahúsinu, en ímyndaður eldur hafði komið þar upp og þurfti að rýma og reykræsta þrjár deildir á sjúkrahúsinu.

Æfingin þótti takast vel en eins og tilgangur slíkra æfinga er, kom ýmislegt í ljós sem betur mátti fara. Eftir æfinguna var unnið ötullega að því að uppfæra neyðarvarnaskipulag af öllum aðilum sem að æfingunni stóðu.

Fjöldahjálparstjóranámskeið á Akranesi

Fjöldahjálparstjóranámskeið var haldið á Akranesi 1. nóvember. Níu manns mættu á námskeiðið: Fimm nýir hópstjórar bættust í hópinn á námskeiðinu og fjórir endurnýjuðu skírteini sín. Auk fyrirlestra voru haldnar tvær skrifborðsæfingar og endaði námskeiðið á opnun fjöldahjálparstöðvar í Brekkubæjarskóla en námskeiðið var haldið í skólanum.

Námskeið í sálrænum stuðningi
Á símafundi svæðisráðs þann 20. nóvember var samþykkt að nota fjárhæð (600.000 kr.) sem á fjárhagsáætlun svæðisráðs átti að fara í að kosta ferð tveggja sjálfboðaliða frá Vesturlandi á ráðstefnu um vinadeildarsamstarf í Gambíu, í að kosta námskeið í sálrænum stuðningi á Vesturlandi. Vegna efnahagshrunsins seinnipart árs var boðið upp á þrjú námskeið í sálrænum stuðningi á svæðinu í desember. Á þau námskeið mættu milli 60 og 70 manns.
 
Heimsóknavinanámskeið
Heimsóknavinanámskeið var haldið í Borgarnesi í byrjun desember. Fimm manns mættu á námskeiðið en Borgarfjarðardeild hefur unnið að stofnun hóps heimsóknavina og er því verkefni ætlað að vera farið af stað í ársbyrjun 2009.

Börn og umhverfi
Akranesdeild, Borgarfjarðardeild, Grundarfjarðardeild, Stykkishólmsdeild og V- Barðastrandasýsludeild héldu öll námskeiðið „Börn og umhverfi“. Almennt var mjög góð þátttaka skólabarna á öll námskeiðin.

Jólaaðstoð

Allar deildir Rauða krossins á Vesturlandi tóku þátt í jólaaðstoð við einstaklinga, ýmist einar eða í samstarfi við aðra í heimabyggð, aðallega mæðrastyrksnefndir og presta. Skjólstæðingum fjölgaði mikið frá árinu áður.

Viðbrögð vegna efnahagshruns
Deildir Rauða krossins á Vesturlandi fylgdust með og brugðust við efnahagsástandinu eftir því hvernig aðstæður voru á hverjum stað. Sem fyrr segir var ákveðið að halda nokkur námskeið í sálrænum stuðningi í kjölfar ástandsins. Í öllum sveitarfélögunum voru myndaðir samstarfshópar sem hittust reglulega og fóru yfir stöðuna og voru Rauða kross deildirnar virkar þar inni. Misjafnt var eftir deildum hve áhrif efnahagsástandsins voru og atvinnuleysi mismikið eftir svæðum.