Skapandi handverk á Akranesi

23. jún. 2009

Handavinnusýningin „Skapandi handverk”  var opnuð á Alþjóðlega flóttamannadaginn síðastliðinn laugardag í Bókhlöðunni á Akranesi. Þar eru til sýnis handverk palestínsku flóttakvennanna og annarra íbúa á Akranesi sem tekið hafa þátt í handavinnunámskeiði á vegum Akranesdeildar Rauða krossins síðast liðinn vetur.

„Á námskeiðinu leiðbeindi Anna Guðrún Júlíusdóttir handavinnukennari við gerð palestínsks útsaums sem er að mörgu leyti líkur þeim íslenska. Þetta var mjög gaman og fróðlegt. Við kynntumst um leið ólíkum menningarheimum og efldum félagsskapinn í gegnum þetta námskeið líkt og íslenskar konur hafa gert um áratugi, til dæmis í kvenfélögum landsins,” segir Shyamali Ghosh sem búið hefur á Akranesi undanfarin ellefu ár. Hún segir að hópurinn sem var saman á námskeiðinu í vetur hafi farið í menningarferð til Reykjavíkur fyrir skömmu og þar hafi konurnar meðal annars heimsótt Þjóðminjasafn Íslands og skoðað gamalt íslenskt handverk.

Handavinnusýningin verður opin fram á sumar eða þar til Bókhlaðan lokar vegna flutnings á nýjan stað.