Ég spyr sjálfa mig í sífellu hvort mig sé að dreyma?

Hanne Mathisen fulltrúa UNHCR á Norðurlöndum

25. jún. 2009

Ég er í heimsókn hjá Sawsan, 42 ára konu frá Palestínu, á nýju heimili hennar í íslenska bænum Akranesi þar sem búa 6600 manns. Þar hefur hún nú búið í níu mánuði ásamt fimm ára syni sínum Yehja og er staðráðin að hefja nýtt líf í nýju landi.  Hún þurfti að flýja blóði drifin stræti Bagdadborgar lifði lengi á barmi örvæntingar í Al-Waleed flóttamannabúðunum á landamærum Sýrlands. Þetta er frásögn hennar, sem um leið er saga um hugrekki og von.

Hryllingurinn í Bagdad að baki
Morgun einn þegar ég vaknaði var eiginmaður minn horfinn. Í sjö mánuði leituðum við hans um allt og óttuðumst að hann væri látinn eða að honum hefði verið rænt. Loks kom upp úr kafinu að hann hafði yfirgefið okkur og flúið til nágrannalands þar sem hann komst í öruggt skjól. Eftir það fóru bardagamenn fóru að koma í húsvitjanir. Þeir komu ekki  í vinsamlegum erindagjörðum og hótuðu að vísa okkur úr húsinu okkar og sögðu að ef við færum ekki myndu þeir hafa son minn á brott með sér. Þeir stálu öllum húsgögnunum okkar. Ég fór til lögreglunnar til að leita aðstoðar, en þegar þeir komu heim til mín börðu þeir mig í staðinn. Hvað hafði ég gert rangt? Ég hafði alltaf búið hér og notið virðingar og friðar. Nú höfðum við ekki neitt lengur, hvorki mat, vatn, rafmagn eða peninga. Dag nokkurn munaði litlu að ég og sonur minn yrðum fyrir vegasprengju. Það var blóð um allt. Ég leit á sjálfa mig, var ég enn í heilu lagi, var ég ennþá lifandi? Ég var á barmi taugaáfalls og ákvað að fara.

Lífsbaráttan í Al-Waleed
Við sváfum í öllum fötum og með vettlinga á höndum undir mörgum teppum. Það var engin upphitun í tjandinu. Ég þorði ekki að kveikja eld því að það hafði kviknað í mörgum tjöldum. Klósettið okkar var einföld fata. Við komumst aðeins í bað einu sinni í mánuði. Sonur minn, sem þá var fjögurra ára gamall var alltaf veikur. Ég var hræddur um að hann væri andlega skaddaður eftir allt ofbeldið sem hann hafði orðið vitni að. Hann var alltaf reiður. Í heilt ár bað ég til Guðs um að bjarga syni mínum. Ég sagði við sjálfa mig að við myndum lifa þetta af. Þá kom kona frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til að taka við mig viðtal. Hún hlustaði á mig í marga klukkutíma. Síðan frétti ég af því að okkur hefði verið boðið til Íslands. Ég hafði heyrt um Ísland í skólanum og séð þætti í sjónvarpinu, en ég hafði aldrei áður hugsað um það sérstaklega.

Ísland og nýja heimilið mitt
Ísland er annað heimili mitt á eftir Palestínu. Tvær af stuðningsfjölskyldum mínum frá Rauða krossi Íslands tóku á móti mér á flugvellinum, meðan tvær aðrar fjölskyldur biðu á nýja heimili mínu til að gefa okkur samlokur. Klukkan var 1 að morgni.

Eftir íslenskutímana fara stuðningsfjölskyldur mínar með mig út að sjá kvikmyndir, kenna mér að nota tölvu, fara með mig í búðir (mér finnst mjög gaman á flóamörkuðunum!) eða elda með mér falafel. Enginn gefur mér illt auga. Um daginn kom meira að segja kona til mín og faðmaði mig að sér.

Syni  mínum finnst mjög gaman á leikskólanum. Hann er gjörbreyttur. Hann er hamingjusamur, hann hlustar á mig, hann er meira að segja farinn að brosa.

Ríkisstjórn Íslands, Akranesbær og Rauði krossinn hafa gefið okkur allt sem við þurfum á að halda. Hús, húsgögn, kaup, mat, föt. Það sem Ísland gerði fyrir okkur er sannarlega mannúðlegt. Ég hef fundið skjól og frið að lokum. Og nú skín jafnvel sólin. Ég spyr sjálfa mig í sífellu hvort mig sé að dreyma?

Sawsan er ein af 29 Palestínskum konum og börnum úr Al Waleed búðunum við landamæri Sýrlands sem fengu að setjast að á Íslandi í september 2008. Konurnar eru á tungumálanámskeiði fjóra daga í viku og vegna þess hve áhugasamar og staðfastar þær eru geta þær nú talað við nýja íslenska vini sína. Þær vonast til þess að efnahagskreppan á Íslandi muni ekki halda þeim frá vinnumarkaðinum of lengi. En hvað sem síðar verður hafa fjölskyldur þeirra nú fengið öruggt skjól og börn þeirra aðgang að menntun og bjartari framtíð.