Sumarbúðir fatlaðra í Stykkishólmi

8. júl. 2009

Nýverið lauk summarbúðum Rauða kross Íslands í Stykkishólmi fyrir fatlaða 18 ára og eldri. Alls tóku 12 manns þátt í þessu skemmtilega starfi sem fram fór dagana 23.-30. Júní 2009. Ýmsir aðilar í Stykkishólmi veittu verkefninu lið, meðal annars lagði Stykkishólmsbær til starfsfólk frá vinnuskólanum vegna þrifa á húsnæði og allir þáttakendur á  sumarbúðunum fengu ókeypis í sund, potta og böð.

„Töluverð reynsla er komin á sumarbúðirnar á þeim árum sem þær hafa verið haldnar,“ sagði Gunnar Svanlaugsson sumarbúðastjóri. „Starfið hefur verið þróað þannig að það henti fötluðum sem allra best. Eins hafa verkefnin verið löguð að veðrinu og við reyndum að vera úti þegar vel viðraði.“

Listamenn stóðu fyrir skemmtilegum verkefnum

Að þessu sinni voru ýmsir listamenn fengnir til að koma á sumarbúðirnar. Gunnar Gunnarsson myndlistamaður kom til að fræða þátttakendur um listsköpun og leiðbeindi þátttakendum við að mála tvö málverk hver. Þessi listaverk tókust mjög vel og voru frábærar minjagripir til að taka með sér heim. Þá kom listakonan Ragna Sc. Eyjólfsdóttir og kenndi ýmsa mjög skemmtilega hluti . Hún hjálpaði þátttakendum að búa til tvö glerlistaverk á mann til að gefa sínum nánustu. Ragna opnaði nýlega Gallerí bragga í Stykkishólmi, sem um leið er handverksstofa hennar.

„Það er skoðun okkar að þessi tilraun hafi tekist mjög vel,“ sagði Gunnar, „og það er sannarlega athugandi að fá fleiri listamenn á þær sumarbúðir sem haldnar verða á komandi árum.“

Dans, sjóferðir og margir aðrir viðburðir

Bæjarbúar tóku eins og alltaf mjög vel á móti hópnum og voru mjög jákvæðir. Sumarbúðagestir fóru í sund á hverjum degi og þar heilsuðu þeim allir með virktum. „Enginn lét það á sig fá þó að við tækjum örlítið meira pláss en ýmsir aðrir hópar.“

 „Eins og jafnan áður var stór hluti af starfinu unninn í sjálfboðavinnu og viljum við þakka það sérstaklega,“ sagði Gunnar. „Mörg fyrirtæki og stofnanir styrktu verkefnið. Skipavík hefur á hverju ári boðið hópnum að borða út í Flatey og gerði það líka að þessu sinni. Stykkishólmsdeild bauð okkur í mat á Fimm fiskum og kynnti þar starf sitt. Jóhannes Eyberg og fjölskylda buðu okkur í heimsókn að Hraunhálsi þar sem við fengum einstakt tækifæri til að umgangast ýmis húsdýr.  Svo má ekki gleyma því að þær systur, Inga Dalla og Edda Steinarsdætur voru hjá okkur eitt kvöldið og kenndu hinn sívinsæla línudans.“

Hópurinn fór í mjög skemmtilega heimsókn að Bjarnarhöfn til að fræðast um hákarlaveiðar og verkun. Öllum var jafnframt boðið í silungsveiði að Helgafelli í Helgafellssveit, þar sem veiddust sjö vænir silungar á tveimur tímum. „Heimsóknirnar að Bjarnarhöfn og Helgafelli voru báðar í boði heimilisfólksins á bæjunum og það var svo sannarlega tekið vel á móti okkur,“ sagði Gunnar.

Mjög mikilvægt starf fyrir aldurshóp sem oft verður útundan

„Sá aldurshópur sem saman kom á þessum sumarbúðum vill oft gleymast og gjarnan er talið að þau eigi bara að bjarga sér sjálf,“ sagði Gunnar.  „Námskeið af þessu tagi eru ein leið af mörgum til að bregðast við því og koma með því til móts við mjög mikilvægar þarfir meðal fatlaðra.  Við sem höfum starfað við sumarbúðir Rauða kross Íslands á Stykkishólmi teljum mjög mikilvægt að áfram verði á boðstólum metnaðarfullt sumarstarf fyrir fatlaða eldri en 18 ára og erum reiðubúin að starfa við þetta áfram í framtíðinni. Sumarbúðirnar eru um leið frábær vettvangur fyrir sjálfboðaliða Rauða krossins til að sýna mannúð í verki. Að lokum viljum við þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessu starfi. Það eru einstök forréttindi að hafa fengið að vinna með öllu þessu frábæra fólki.“