Rauði krossinn á „súpufundi“ á Patreksfirði

12. okt. 2009

Á Patreksfirði hefur sú skemmtilega hefð verið viðhöfð í tæpt ár að halda vikulega „súpufundi” í sjóræningjahúsinu, sem er nýuppgerð vélsmiðja og stendur á Vatneyri, en húsið var byggt snemma á síðustu öld. Á súpufundunum sem SKOR þekkingarsetur stendur fyrir, gefast fyrirtækjum og félagasamtökum tækifæri til að kynna starfsemi sína eða fjalla um valin málefni. Fundargestir hittast í hádeginu, borða saman súpu dagsins og hlusta á hálftíma umfjöllun um fyrirfram auglýst málefni.

 Í síðustu viku fór formaður V-Barðastrandarsýsludeildar Rauða krossins, Helga Gísladóttir í heimsókn í sjóræningjahúsið og flutti fundargestum kynningu á starfi Rauða krossins. Fór Helga yfir starfsemi félagsins á alþjóðasviði, innanlandssviði, fatasöfnunar auk þess sem hún gerði starfsemi deildarinnar ýtarleg skil. Að lokum kynnti Helga hvað helst væri framundan í starfi deildarinnar og bar þar hæst núverandi Rauðakrossvika og söfnun í LIÐSAUKA.

Vakti kynningin mikinn áhuga meðal fundargesta og voru þeir á einu máli um að þeir hefðu fyrir kynningu ekki gert sér neina grein fyrir því hversu gríðarlega umfangsmikil og fjölþætt starfsemi Rauða krossins er, og hve ómetanlegt en jafnframt oft á tíðum ósýnilegt það framlag er, sem sjálfboðaliðar í deildum landsins eru að leggja til samfélagsins, heima sem og á alþjóðlegum vetvangi á hverjum degi árið umkring.

Mikil gróska er í starfsemi deildarinnar en sjálfboðaliðar koma frá Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal.

Gagngerar  endurbætur hafa verið gerðar á húsnæði deildarinnar á undanförnum árum og er það orðið hið glæsilegasta þó endurbótum sé ekki að fullu lokið. Auk þess að hýsa starfsemi deildarinnar leigir deildin út hluta húsnæðisins fyrir sjúkrabíla og iðnaðarstarfsemi.