Líf og fjör í kynningarviku

14. okt. 2009

Það hefur verið líf og fjör í Rauða kross húsinu á Akranesi þessa vikuna, en nú stendur sem hæst kynningarvika Rauða kross Íslands, og margt á döfinni. Dagurinn í dag hófst á smávegis kaffisamsæti þar sem lagt var á ráðin um dagana framundan. Klukkan 13.00 mætir Prjóni prjón prjónahópur og galdrar eitthvað dásamlegt fram að vanda, en þess má til gamans geta að hópurinn verður með basar á Vökudögum. Frá klukkan fimm til sjö í dag verða sjálfboðaliðar á ferðinni um bæinn að safna liðsauka og segja frá því að í kvöld klukkan 20.15 verður opið hús í Rauða kross húsinu þar sem fjallað verður um helstu verkefni deildarinnar, auk liðsaukaverkefnisns.  Slegið verður í vöfflur og heitt kaffi á könnunni. Á morgun stefnum við svo að því að setja met á Merkurtúni. Þá stefnum við rauðklæddum Skagamönnum saman til þess að mynda rauðan kross sem myndaður verður úr lofti fyrir fjölmiðla.  Rauði krossinn er stærsta mannúðarhreyfing í heimi – vilt þú vera með?