Hugleiðingar að nýlokinni kynningarviku

Kristján S. Bjarnason svæðisfulltrúa Rauða krossins á Vesturlandi

20. okt. 2009

ERTU TIL ÞEGAR Á REYNIR eru einkunnarorð nýliðinnar kynningarviku Rauða kross Íslands. Ég tel að allir sjálfboðaliðar, starfsmenn og aðrir sem að kynningarvikunni komu með einum eða öðrum hætti geti verið sammála um hún hafi tekist langt framar vonum, fengið frábær viðbrögð hjá landsmönnum og sýnt svo ekki verður um villst að Íslendingar ERU TIL ÞEGAR Á REYNIR. Hverjar endanlegar tölur um skráningar landsmanna í LIÐSAUKA eru veit ég ekki en miðað við þær viðtökur sem ég hef heyrt af og orðið vitni að í starfi mínu grunar mig sterklega að það markmið að safna 1000 manns á útkallslista LIÐSAUKA verði sprengt með miklum glæsibrag. Það er sannarlega ljós í myrkri þeirra þrenginga sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir að verða vitni að þeirri breytingu sem orðið hefur á gildismati okkar ágætu þjóðar síðastliðið ár. Samhyggð, á kostnað einstaklings – og efnishyggju hefur gagntekið okkur Íslendinga. Sem starfsmaður Rauða kross deilda á Vesturlandi og svæðisráðs finn ég sterklega fyrir því að vakning hefur orðið og við landsmenn snúum bökum saman og bítum í skjaldarrendur, ákveðnir í að standa þennan fj……. af okkur eins og við sem þjóð höfum svo ótal oft gert í gegnum aldirnar. Á tímum samdráttar og þrenginga blómstrar starf í Rauða kross deildum sem aldrei fyrr.

Þegar kreppan og óvissan um framtíðina virðist vera í hámarki hér á okkar ágæta Íslandi og maður hefði ætlað að hver hugsi sem svo að nú sé tíminn til að halda fast um sig og sitt kemur neyðarbeiðni frá Rauða krossinum í Hvítarússlandi um 2500 ungbarnapakka sem þurfa að vera tilbúnir til sendingar frá Íslandi 1.desember, en þar hefur veturinn innreið sína af miklum þunga í janúarbyrjun með frosti niður í -20° á celsíus. Pökkunum verði dreift til heimila fyrir munaðarlaus börn, stofnana fyrir veik og fötluð ungabörn og fátækra fjölskyldna með nýfædd börn, einkum í afskekktum þorpum. Á innan við tveimur vikum hafa sjálfboðaliðar í deildum landsins tekið saman höndum og brugðist við með þeim hætti að mér verður orðavant af undrun og hrifningu. Ég held að ómögulegt sé að slá tölu á þann fjölda sjálfboðaliða og velunnara Rauða kross Íslands sem þessa dagana sitja og prjóna hörðum höndum ungbarnapeysur, sokka, húfur og aðra prjónavöru sem þarf í pakkana. Þáttur þeirra í ásetningi Rauða kross Íslands að svara þessu neyðarkalli og hafa 2500 ungbarnapakka tilbúna fyrir 1. desember, er ómetanlegur og aðdáunarverður. Starfsmenn og sjálfboðaliðar í fataflokkun fara af kostgæfni í gegnum það gríðarmikla magn af fatnaði sem til þeirra berst á degi hverjum og tína úr og taka frá allt það sem nýst getur í ungbarnapakkana s.s. samfellur, handklæði teppi o.fl.

Mér er það stórlega til efs að Henry Dunant hafi getað órað fyrir því að það sem hann lagði grunninn að árið 1863 yrði að því sem í dag, tæpum 150 árum seinna er Rauði krossinn, virtasta og útbreiddasta mannúðarhreyfing heims starfandi í tæplega 190 löndum, borin uppi af starfi og stuðningi 97 milljón félagsmanna og sjálfboðaliða og um 300 þúsund starfsmanna víðsvegar um heim. Verkefnalista Rauða krossins frá upphafi reyni ég ekki að gera skil. Um hann hafa verið skrifaðar bækur og eru enn þar sem sífellt bætist við hann.
Þegar ég fyrir tæpum tveimur árum hóf störf sem svæðisfulltrúi Rauða krossins á Vesturlandi taldi ég mig vita eitt og annað um starfsemi Rauða kross hreyfingarinnar. Í dag klóra ég mér í hausnum yfir því þegar ég hvern dag geri mér smátt og smátt betur grein fyrir hversu gríðarlega umfangsmikil starfsemi Rauða kross hreyfingarinnar er og hvað ég veit í rauninni agnarlítið um Rauða krossinn. Það mikla og óeigingjarna starf sem sjálfboðaliðar í deildum landsins vinna á degi hverjum árið umkring í þágu mannúðarmála á innlendum sem og á alþjóðlegum vetvangi er sterkur og traustur hlekkur í þeirri keðju sem alþjóða Rauði krossinn myndar og bregst á hverjum degi við ákalli bágstaddra um heim allan auk þess að standa vörð um mannúð og mannréttindi í heiminum.

Ég leyfi mér að fullyrða að ég tali fyrir hönd allra samstarfsmanna minna hjá Rauða krossi Íslands þegar ég segi við ykkur ágætu sjálfboðaliðar að það frábæra og fórnfúsa starf sem þið eruð að vinna um allt land á hinum ýmsu sviðum mannúðarmála er okkur starfsmönnum mikil hvatning í starfi og gerir heiminn talsvert miklu betri en hann annars væri.

Með kærri kveðju
Kristján S. Bjarnason.