Rauði krossinn á Vökudögum

3. nóv. 2009

Það hefur verið í nógu að snúast hjá Rauða krossinum á Akranesi undanfarið, einsog venja er á þessum árstíma. Um helgina lauk Vökudögum – menningarhátíð á Akranesi – sem deildin tók þátt í með því að standa fyrir basar Prjónahóps og taka þátt í Þjóðahátíð. Báðir viðburðirnir heppnuðust einstaklega vel. Stór hluti af framleiðslu prjónahóps seldist upp og mörg hundruð manns lögðu leið sína á Þjóðahátíð að kynna sér menningu nágranna sinna í tónum og mat.
Að þessu sinni buðu fulltrúar frá Filippseyjum, Þýskalandi, Gvatemala, Írak/Palestínu, Kenya, Íslandi, Noregi, Indlandi, Eþíópíu, Póllandi, Egyptalandi, Jamaika, Skotlandi/Írlandi, Litháen, Rússlandi, Úkraínu og  Ungverjalandi Skagamönnum í heimsókn, auk þess sem Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi kynnti starf sitt með innflytjendum og fulltrúar frá SEEDS (See beond Borders) kynntu sína starfsemi. Fjöldi listamanna tróð upp og skemmtu gestum með söng og dansi, m.a. Megas,  búlgörsk þjóðdansasveit, magadansmey og rokksveit skipuð ungum Skagastrákum.
Þetta er í þriðja sinn sem fjölmenningunni er fagnað á Þjóðahátíð á Akranesi. Fyrir þremur árum stóð Akranesdeildin fyrir hátíðinni og í kjölfarið urðu til samtök innflytjenda á Vesturlandi – Félag nýrra Íslendinga - SONI. Unanfarin tvö ár hefur verið um samvinnuverkefni SONI og Rauða krosssins á Akranesi að ræða.