21. jún. 2005 : Stuðningur við geðsjúka í Gambíu

Í Fataflokkunarstöð Rauða krossins þar sem gengið var frá sendingunni til Gambíu.
Gestir og starfsfólk Vinjar, athvarfs fyrir geðfatlaða, hafa undanfarnar vikur fyllt gám af vörum sem verður síðan sendur á geðsjúkrahús í Banjul í Gambíu. Leitað var til fyrirtækja og fóru í gáminn efnisafgangar, saumavélar og tæki til að nota við saumaskapinn, stílabækur og blýantar. Einnig var laumað með persónulegum gjöfum og bréfum frá Vinjarfólkinu.

Gestir Vinjar hafa verið í bréfasambandi við geðsjúka í Banjul. Á síðastliðnu hausti kom sjálfboðaliði frá gambíska Rauða krossinum í Banjul í heimsókn í Vin og fræddi þau um land og þjóð og aðstæður geðsjúkra á svæðinu. Hann fór síðan heim með bréf, myndir, fræ, tónlist, myndbönd og gjafir handa sjúklingunum á geðsjúkrahúsinu.