27. júl. 2006 : Grænlenskt þema á afmælismóti Róberts Harðarsonar

Afmælisbarnið teflir við Guðmund Valdimar.
Skákfélag Vinjar, eins athvarfa Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða, hélt afmælismót til heiðurs Róberti Harðarssyni skákmeistara mánudaginn 24. júli. Var mót þetta firnasterkt, hver kempan mætti á eftir annarri til þess að etja kappi við afmælisbarnið. Á annan tug þúsunda Elo-stiga svifu um borðstofuna, þó ekki væru keppendur á endanum fleiri en tólf því nokkrir létu sér nægja að fylgjast með.

Grænland var í hávegum haft á móti þessu, en í byrjun ágúst verður IV Grænlandsmótið haldið, nú í Tasiilaq eins og tvö sl. ár. Fjöldi manns fer í byrjun ágúst, þar á meðal afmælisbarnið, Róbert sjálfur, sem hefur tekið þátt í Grænlandsævintýrinu frá byrjun og sigraði á mótinu sl. sumar.

13. jún. 2006 : Hrókeringar, fórnir og fléttur hjá spennumeistara Alistair Maclean

16 manns mættu til leiks á Alistair Maclean mót Hróksins og skákfélags Vinjar, mánudaginn 12. júní.

Þar sem þrjú ár eru um þessar mundir síðan Hrókurinn fór að venja komur sínar í Vin, athvarf Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða, var mót þetta haldið og tókst það afar vel.

Tefldar voru fimm umferðir eftir monradkerfi og hafði landsliðsmaðurinn og stórmeistarinn Henrik Danielsen sigur með fullt hús stiga.

Með 3 ½ vinning komu svo Björn Sölvi Sigurjónsson, Kjartan Guðmundsson, Róbert Harðarson og Guðmundur Valdimar Guðmundsson, sem var í miklu stuði á mótinu. sjötta sæti varð Elsa María Þorfinnsdóttir með þrjá vinninga og aðrir minna.

30. maí 2006 : Afmælismót í Vin

Afmælissöngurinn var fluttur til heiðurs Guttesen.
Til heiðurs Kristians Guttesen var haldið afmælismót í blíðviðrinu fyrir utan Vin, athvarf Rauða krossins, Hverfisgötu 47, í gær mánudaginn 29. maí.

Þátttakendur voru sjö talsins og umferðirnar urðu aðeins þrjár og hálf því kaffi og terta þoldu ekki langa bið. Kristian hefur verið ötulasti liðsmaður Hróksins við að heimsækja Vin undanfarin tvö ár og staðið að æfingum og uppákomum þar en félagar í Hróknum hafa komið þar á mánudögum nú í tæp þrjú ár.

26. maí 2006 : Deild 12 hreppti Hróksbikarinn

Jón Kristjánsson félagsmálaráðherra og verndari skákfélags Vinjar opnaði mótið með hraðskák gegn Gunnari Gestssyni.
Skákfélagið Hrókurinn og skákfélag Vinjar, athvarfs Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða, stóðu fyrir skákmóti milli geðdeilda sl. þriðjudag í hátíðarsal Kleppsspítala. Sex lið mættu til leiks og voru tefldar fimm umferðir þar sem umhugsunartími var fimm mínútur.

Deild 12 sigraði annað árið í röð og gera má ráð fyrir að Hróksbikarinn, sem keppt var um, fái virðulega staðsetningu þar innandeildar.

Keppnin var endurvakin á sl. ári eftir að hafa legið niðri í ríflega áratug. Sex þriggja manna lið tóku þátt að þessu sinni, mönnuð starfsmönnum og fólki sem tengst hefur einhverri deild undanfarin ár.

29. mar. 2006 : Pennamót með glæsibrag

Guðbjörg Sveinsdóttir tekur við skáksettum úr höndum þeirra Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur forseta Skáksambands Íslands og Hrafni Jökulssyni fyrrum forseta Hróksins. Skákfélag Vinjar mun koma þeim fyrir í athvörfum og sambýlum fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu á næstunni.
Mánudaginn 20. mars héldu skákfélag Vinjar og Hrókurinn ?Pennamótið? í Vin. Fjórtán manns tóku þátt og voru tefldar fjórar hraðskákir eftir svissnesku fyrirkomulagi.

Meðal þátttakenda voru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir forseti Skáksambands Íslands, Hrafn Jökulsson fyrrverandi forseti Hróksins, Elsa María Þorfinnsdóttir íslandsmeistari stúlkna í skólaskák og fleiri góðir gestir. Elsa María varð í þriðja sæti á mótinu og Hrafn í öðru sæti. Bjarni Sæmundsson vann hins vegar allar sínar skákir og var krýndur Pennameistari í skák

22. feb. 2006 : Guðmundur Valdimar varð JPV meistari Hróksins og Vinjar

Kristian Guttesen liðsmaður Hróksins afhendir fyrstu verðlaunin í hendur Guðmundar Valdimars.
Mánudaginn 20. febrúar var haldið JPV mót Hróksins í Vin í tilefni af 13 ára afmæli Vinjar. Tefldar voru fjórar skákir og á eftir snæddu menn kökur og kaffi í boði hússins. Sigurvegari mótsins og þar með krýndur JPV meistari Hróksins og Vinjar varð Guðmundur Valdimar Guðmundsson.

JPV útgáfa veitti veglega vinninga á mótinu auk þess sem forlagið gaf húsinu hið einstaka stórvirki Jörðina, sem út kom fyrir síðustu jól, og hefur að geyma yfirgripsmikla umfjöllun um jörðina í öllum sínum mikilfeng og fegurð.