30. maí 2006 : Afmælismót í Vin

Afmælissöngurinn var fluttur til heiðurs Guttesen.
Til heiðurs Kristians Guttesen var haldið afmælismót í blíðviðrinu fyrir utan Vin, athvarf Rauða krossins, Hverfisgötu 47, í gær mánudaginn 29. maí.

Þátttakendur voru sjö talsins og umferðirnar urðu aðeins þrjár og hálf því kaffi og terta þoldu ekki langa bið. Kristian hefur verið ötulasti liðsmaður Hróksins við að heimsækja Vin undanfarin tvö ár og staðið að æfingum og uppákomum þar en félagar í Hróknum hafa komið þar á mánudögum nú í tæp þrjú ár.

26. maí 2006 : Deild 12 hreppti Hróksbikarinn

Jón Kristjánsson félagsmálaráðherra og verndari skákfélags Vinjar opnaði mótið með hraðskák gegn Gunnari Gestssyni.
Skákfélagið Hrókurinn og skákfélag Vinjar, athvarfs Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða, stóðu fyrir skákmóti milli geðdeilda sl. þriðjudag í hátíðarsal Kleppsspítala. Sex lið mættu til leiks og voru tefldar fimm umferðir þar sem umhugsunartími var fimm mínútur.

Deild 12 sigraði annað árið í röð og gera má ráð fyrir að Hróksbikarinn, sem keppt var um, fái virðulega staðsetningu þar innandeildar.

Keppnin var endurvakin á sl. ári eftir að hafa legið niðri í ríflega áratug. Sex þriggja manna lið tóku þátt að þessu sinni, mönnuð starfsmönnum og fólki sem tengst hefur einhverri deild undanfarin ár.