27. júl. 2006 : Grænlenskt þema á afmælismóti Róberts Harðarsonar

Afmælisbarnið teflir við Guðmund Valdimar.
Skákfélag Vinjar, eins athvarfa Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða, hélt afmælismót til heiðurs Róberti Harðarssyni skákmeistara mánudaginn 24. júli. Var mót þetta firnasterkt, hver kempan mætti á eftir annarri til þess að etja kappi við afmælisbarnið. Á annan tug þúsunda Elo-stiga svifu um borðstofuna, þó ekki væru keppendur á endanum fleiri en tólf því nokkrir létu sér nægja að fylgjast með.

Grænland var í hávegum haft á móti þessu, en í byrjun ágúst verður IV Grænlandsmótið haldið, nú í Tasiilaq eins og tvö sl. ár. Fjöldi manns fer í byrjun ágúst, þar á meðal afmælisbarnið, Róbert sjálfur, sem hefur tekið þátt í Grænlandsævintýrinu frá byrjun og sigraði á mótinu sl. sumar.