19. des. 2007 : Gunnar Freyr hneppti gullið í Vin

Hrókurinn og Skákfélag Vinjar héldu árlegt jólamót á mánudaginn. 10 manns mættu og var mótið býsna sterkt enda glæsilegir vinningar í boði frá bóka- og tónlistarútgáfunni SÖGUR.
 
Tefldar voru fimm umferðir og var umhugsunartími sjö mínútur. Talsverð spenna lá í loftinu enda mönnum meinilla við að tapa, eins og gengur. Að loknum þremur umferðum var gerð kaffipása, enda bornar í keppnisfólkið smákökur og jólailmurinn sveif um í stofunni.
 
Fyrir mót var ákveðið að verðlaunapeninga fengju þeir sem voru með undir 2000 elo stigum, þar sem von var á nokkrum fræknum kempum sem eiga fullt af medalíum. Flestir forfölluðust vegna mikillar vinnu eða hinnar alræmdu desemberflensu. Stórmeistarinn Henrik Danielsen, sem er einn þeirra sem hafa verið með æfingar í Vin undanfarin ár, keppti því sem heiðursgestur og hafði hann að lokum sigur í öllum sínum skákum en fékk þó veglega mótspyrnu.

14. des. 2007 : Hátíðarstund í Vin

Á miðvikudögum er opið fram á kvöld í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir. Þá er eitthvað skemmtilegt í gangi og nú fyrir jól, sem og reyndar fyrri jól, er rithöfundum boðið að lesa upp úr nýjum bókum sínum og í léttan mat á eftir.

Meðal þeirra sem þegið hafa boðið eru þau Vigdís Grímsdóttir og Valur Gunnarsson. Stofan var full af fólki þar sem jólatréð glitraði og kertaljós lýstu upp í rökkrinu þannig að samkoman var virkilega hátíðleg.

Vigdís reið á vaðið með lestri úr bók sinni „Bíbí" og fórst það vel. Byrjaði með léttum hugleiðingum og sannaði hve mikil sögumanneskja hún er. Valur, sem starfað hefur sem blaðamaður undanfarin ár og var nú að senda frá sér sína fyrstu skáldsögu, „konung norðursins" kynnti fyrir hlustendum heim lappanna í Finnlandi, en í sögu hans fléttast fornir heimar saman við þá nýju. Já, nútíminn mætir goðsögnum og galdri í ævintýrinu hans Ilkka Hampurilainen.

12. des. 2007 : Jólamót Hróksins haldið í hátíðarsal Kleppsspítala

Hrókurinn og Skákfélag Vinjar héldu jólamót á Kleppsspítala á mánudaginn. Ákveðið var að stöðva sigurgöngu deildar 12 sem hefur hneppt bikarinn undanfarin ár og skyldi öllu til tjaldað. Tvær deildir, 32C og 36, sendu harðsnúnar sveitir á vettvang en auk þeirra tóku þátt skáksveitir Vinjar, athvarfs Rauða krossins og Bergiðjunnar. Þrír voru í liði og að hámarki einn starfsmaður innanborðs. Róbert Lagerman var skákstjóri og á hann reyndi því svo mikill hiti var í mönnum á tímabili.

Björn Þorlákur Björnsson, fjármálastjóri hins nýstofnaðs bókaforlags Skugga lék fyrsta leikinn í skák þeirra Björns Agnarssonar og Erlings Þorsteinssonar. Þrjú efstu liðin fengu einmitt glænýjar bækur frá útgáfunni í verðlaun.

13. nóv. 2007 : Björn Sölvi efstur á Guðbjargar/Þórdísarmótinu

Þar sem Guðbjörg Sveinsdóttir lét nýlega af störfum sem forstöðumaður Vinjar, athvarfs Rauða krossins, og Þórdís Rúnarsdóttir tók við, hélt skákfélag Vinjar mót þeim til heiðurs.

Sjö þátttakendur voru tilbúnir í slaginn en þær stöllur, núverandi og fyrrum stjórar, fylgdust með. Segjast ekki tilbúnar í keppni.

Þórdís lék fyrsta leikinn í skák þeirra Björns Sölva Sigurjónssonar og Árna Jóhannssonar og svo tefldu allir við alla. Umhugsunartími var sjö mínútur á mann og var mótið afar spennandi þrátt fyrir nokkrar frumlegar skákir

8. okt. 2007 : Skemmtun í Perlunni í tilefni Alþjóða geðheilbrigðisdagsins

Alþjóði geðheilbrigðisdagurinn var haldinn hátíðlegur í gær með glæsilegri samkomu í Perlunni. Fjöldinn allur af félögum og stofnunum sem starfa að málefnum geðheilbrigðis kynntu starfsemi sína. Þar á meðal var Rauði krossinn sem lagði áherslu á kynningu athvarfanna á höfuðborgarsvæðinu, Vin í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi og Læk í Hafnarfirði.
 
Skákfélag Vinjar hélt hraðskákmót í samvinnu við Hrókinn. Guðfríður Lilja Grétardóttir forseti Skáksambands Íslands flutti stutt ávarp og setti mótið formlega. Heiðar Ingi Svansson, markaðsstjóri Forlagsins, sem gaf glæsilega bókavinninga á mótið, lék svo fyrsta leikinn á mótinu. Gunnar Freyr Rúnarsson sigraði og lagði alla sína

1. okt. 2007 : Grænlenskir krakkar í sundferð

Rauði krossinn fékk skemmtilega heimsókn. Þar voru á ferðinni 25 grænlenskir krakkar á tólfta ári ásamt fararstjórum, sem dvalið hafa i Kópavogi og eru að læra að synda.

Heimsókn krakkanna til Íslands er í beinu framhaldi af ferðum skákfélagsins Hróksins til austurstrandar Grænlands undanfarin fjögur ár. Þar hafa verið gefin hátt í þúsund skáksett og skákin kynnt fyrir innfæddum sem þekktu lítið til hennar áður. Engar sundlaugar eru á Austur-Grænlandi, aðeins er ein í þessu stóra landi og er hún í Nuuk, höfuðborginni á vesturströndinni.

12. sep. 2007 : Þrítugur hamar að baki..., ...hjá honum Þórði Sveinssyni.

Þórði til heiðurs héldu Hrókurinn og skákfélag Vinjar, afmælisskákmót í Vin, mánudaginn 10. september. Átta þátttakendur skráðu sig til leiks, en nokkrir fulltrúar skákfélags Vinjar forfölluðust og allmargir gátu ekki verið með vegna vinnu og skóla. Nokkrir félagar afmælisbarnsins kíktu þó við og heilsuðu upp á nýþrítugan piltinn.

Katrín Júlíusdóttir, alþingismaður, var heiðursgestur og lék fyrsta leikinn í skák þeirra Róberts Harðarsonar og Elsu Maríu Þorfinnsdóttur. Heiðraði hún þar mótsgesti og ekki síst afmælisdrenginn sem er jú formaður ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði, lögfræðingur persónuverndar og gjaldkeri skákfélagsins Kátu biskuparnir. Katrín vildi meina að framfarir hennar í skáklistinni væru hægar svo hún var að sjálfsögðu leyst út með bókinni “skákþjálfun” auk ljóðabókar eftir mótsstjóra, Kristian Guttesen.

23. ágú. 2007 : Sólskinsferð á Sólheima

Síðustu viku dvöldu 10 félagar úr Víðsýn, ferðafélagi athvarfsins Vinjar, á Sólheimum í Grímsnesi. Stjórn ferðafélagsins undirbjó ferðina í samstarfi við Óskar Jónsson forstöðumann atvinnusviðs Sólheima en meginmarkmiðið með ferðinni var uppbygging og heilsuefling.

Gist var í góðri aðstöðu á gisti- og heilsuheimilinu Brekkukoti. Móttökur og viðurgjörningur allur var til fyrirmyndar og dagskrá vikunnar fjölbreytt og skemmtileg og starfsmönnum Sólheima til sóma.

Ferðafélagarnir tóku þátt í leikfimi, jóga, sundleikfimi, fyrirlestri um heilsueflingu, vinnu á tré- og kertaverkstæðinu auk göngutúra um svæðið. Hver dagur byrjaði með morgunfundi út á túni þar sem allir íbúar og starfsmenn staðarins mynduðu hring hönd í hönd til að bjóða daginn velkominn og fara yfir helstu atburði dagsins. Á kvöldin voru skemmtiatriði svo sem bingó og spil.

30. júl. 2007 : Glimrandi Grænlandsmót í Vin

Hróksverjar og skákfélag Vinjar héldu Grænlandsmót 23. júlí í Vin, sem er athvarf Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir. Mótið var haldið í tilefni þess að skákfélagið Hrókurinn heldur áfram skáklandnámi sínu á Grænlandi í ágúst. Tólf þátttakendur skráðu sig til leiks, einhverjir vildu fremur fylgjast með og tveir komu of seint!

Fánar blöktu  í blómavösum, myndir frá fyrri ferðum Hróksins voru á veggjum ásamt landakortum svo gestir gætu virt fyrir sér þetta ótrúlega land. Stemningin var glimrandi, það var barið á klukkur sem voru yfirleitt réttar en stundum rangar og þrátt fyrir frábærar fléttur voru afleikir glæsilegir á köflum.

11. jún. 2007 : Sumarævintýri hjá skákfélagi Vinjar

Þrír urðu efstir og jafnir á Sumarævintýramóti Hróksins og skákfélagsins í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir í síðustu viku. Hrókurinn hefur nú haldið uppi skákstarfi í Vin með vikulegum æfingum í 4 ár.

Björgvin G. Sigurðsson, nýskipaður viðskiptaráðherra, var heiðursgestur á mótinu og lék fyrsta leikinn í skák Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur forseta Skáksambandsins og Hrafns Jökulssonar forseta Hróksins. Við sama tækifæri hlaut Lilja að gjöf nákvæma eftirlíkingu af drottningu, sem skorin var út í rostungstönn fyrir hartnær 1000 árum.

Mótið var skemmtilegt og spennandi. Hrafn, Róbert Harðarson og Björn Sigurjónsson hlutu 4 vinninga af 5 mögulegum og deildu með sér gullinu.

11. maí 2007 : Ferðafélagið Víðsýn fékk úthlutað 300 þúsund krónum úr pokasjóði

Úthlutun úr pokasjóði fór fram við hátíðlega athöfn í Salnum í gær. Ferðafélaginu Víðsýn var úthlutað 300 þúsund krónum til styrktar heilsueflingarferðum. Ríflega 100 milljónum króna var úthlutað til 122 verkefna á sviði umhverfismála, mannúðarmála, lista, menningar, íþrótta og útivistar. Um styrki sóttu 900 aðilar.

Í Vin, athvarfi Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir, er starfandi heilsuklúbbur sem hefur það að markmiði að efla bæði andlega og líkamlega heilsu þeirra er athvarfið sækja. Áhersla er lögð á hreyfingu og hollara mataræði, auk þess að njóta lífsins lystisemda, enda helst andleg og líkamleg heilsa yfirleitt í hendur.

Ferðafélagið Víðsýn er félag gesta og starfsfóks Vinjar, athvarfs Rauða krossins fyrir geðfatlaða og hefur það markmið að gefa félagsmönnum kost á að ferðast innanlands sem utan á hagkvæman hátt og með stuðningi. Ferðir eru undirbúnar með allt að árs fyrirvara bæði með fjáröflun og fræðslu um svæðin sem verða heimsótt.

10. maí 2007 : Uppreisn litarins

Á mánudaginn var opnuð listsýningin Uppreisn litarins með pompi og prakt í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir. Sýningin er framlag Vinjar til hátíðarinnar list án landamæra. Helga G. Halldórsdóttir sviðsstjóri innanlandssviðs opnaði sýninguna formlega.

3. maí 2007 : Metþátttaka á Morgan Kane mótinu

Tómas Björnsson sigraði á hraðskákmóti í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, á mánudaginn sl. en átján manns fögnuðu sumri og hylltu hetjuna Morgan Kane með þessum hætti. Var svo mikill rífandi gangur á mótinu að tefldar voru sex umferðir í stað fimm. Fórnir og fléttur og klukkur barðar eins og harðfiskar enda aðeins 7 mínútur á mann.

Nýstárlegar opnanir og alls kyns afbrigði léku lausum hala og eitt þeirra kennt við Polar Bear, sem Henrik Danielsen hefur þróað eftir skáklandnám Hróksins á Grænlandi, gaf nokkra óvænta vinninga. Mátti búast við fjölmenni þar sem vitað var að allir fengju Morgan Kane bók í boði feðganna Braga og Ara Gísla í Bókinni við Klapparstíg. Ekki nóg með það því allir þátttakendur fengu aukaverðlaun, einnig í bókarformi.

8. feb. 2007 : Afmæli fagnað í Vin

Vin, athvarf Rauða kross Íslands í Reykjavík fyrir fólk með geðraskanir, fagnar 14 ára afmæli í dag. Gestir og starfsfólk athvarfsins gera sér glaðan dag með þorramat og skemmtun en tekið var forskot á sæluna á mánudaginn þegar haldið var afmælisskákmót.

16. jan. 2007 : Afmælismót Lilju forseta

Það voru allmörg ELO skákstig í stofunni í Vin, athvarfi Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða í Reykjavík, mánudaginn 15. janúar þegar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, forseti Skáksambands Íslands, var heiðruð með afmælismóti. Náði hún þremur og hálfum tug ára á dögunum sem auðvitað kallaði á samkomu og mót. Skákfélag Vinjar og Hrókurinn slógu einu sinni sem oftar í púkk til að svara kallinu. 

Tíu manns tóku þátt í mótinu sem var fjörugt með afbrigðum, dæst og hvæst, barið á klukkur og höndum fórnað eftir illa ígrundaðar mannfórnir. Blómarósin Lilja, afmælisstúlkan sjálf, stóð uppi sem sigurvegari, á stigum, með fjóra vinninga í fimm skákum. Gunnar Freyr Rúnarsson stóð sig eins og hetja og hafði einning fjóra vinninga eins og stórmeistarinn Henrik Danielsen. Næstir komu Hrafn Jökulsson og Hrannar Jónsson, hinir miklu kappar Hróksins. Aðrir keppendur voru: Pétur Blöndal, Sigurjón Þór Friðþjófsson, Elsa Maria Þorfinnsdóttir, Haukur Halldórsson og Arnar Valgeirsson.