11. maí 2007 : Ferðafélagið Víðsýn fékk úthlutað 300 þúsund krónum úr pokasjóði

Úthlutun úr pokasjóði fór fram við hátíðlega athöfn í Salnum í gær. Ferðafélaginu Víðsýn var úthlutað 300 þúsund krónum til styrktar heilsueflingarferðum. Ríflega 100 milljónum króna var úthlutað til 122 verkefna á sviði umhverfismála, mannúðarmála, lista, menningar, íþrótta og útivistar. Um styrki sóttu 900 aðilar.

Í Vin, athvarfi Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir, er starfandi heilsuklúbbur sem hefur það að markmiði að efla bæði andlega og líkamlega heilsu þeirra er athvarfið sækja. Áhersla er lögð á hreyfingu og hollara mataræði, auk þess að njóta lífsins lystisemda, enda helst andleg og líkamleg heilsa yfirleitt í hendur.

Ferðafélagið Víðsýn er félag gesta og starfsfóks Vinjar, athvarfs Rauða krossins fyrir geðfatlaða og hefur það markmið að gefa félagsmönnum kost á að ferðast innanlands sem utan á hagkvæman hátt og með stuðningi. Ferðir eru undirbúnar með allt að árs fyrirvara bæði með fjáröflun og fræðslu um svæðin sem verða heimsótt.

10. maí 2007 : Uppreisn litarins

Á mánudaginn var opnuð listsýningin Uppreisn litarins með pompi og prakt í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir. Sýningin er framlag Vinjar til hátíðarinnar list án landamæra. Helga G. Halldórsdóttir sviðsstjóri innanlandssviðs opnaði sýninguna formlega.

3. maí 2007 : Metþátttaka á Morgan Kane mótinu

Tómas Björnsson sigraði á hraðskákmóti í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, á mánudaginn sl. en átján manns fögnuðu sumri og hylltu hetjuna Morgan Kane með þessum hætti. Var svo mikill rífandi gangur á mótinu að tefldar voru sex umferðir í stað fimm. Fórnir og fléttur og klukkur barðar eins og harðfiskar enda aðeins 7 mínútur á mann.

Nýstárlegar opnanir og alls kyns afbrigði léku lausum hala og eitt þeirra kennt við Polar Bear, sem Henrik Danielsen hefur þróað eftir skáklandnám Hróksins á Grænlandi, gaf nokkra óvænta vinninga. Mátti búast við fjölmenni þar sem vitað var að allir fengju Morgan Kane bók í boði feðganna Braga og Ara Gísla í Bókinni við Klapparstíg. Ekki nóg með það því allir þátttakendur fengu aukaverðlaun, einnig í bókarformi.