11. jún. 2007 : Sumarævintýri hjá skákfélagi Vinjar

Þrír urðu efstir og jafnir á Sumarævintýramóti Hróksins og skákfélagsins í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir í síðustu viku. Hrókurinn hefur nú haldið uppi skákstarfi í Vin með vikulegum æfingum í 4 ár.

Björgvin G. Sigurðsson, nýskipaður viðskiptaráðherra, var heiðursgestur á mótinu og lék fyrsta leikinn í skák Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur forseta Skáksambandsins og Hrafns Jökulssonar forseta Hróksins. Við sama tækifæri hlaut Lilja að gjöf nákvæma eftirlíkingu af drottningu, sem skorin var út í rostungstönn fyrir hartnær 1000 árum.

Mótið var skemmtilegt og spennandi. Hrafn, Róbert Harðarson og Björn Sigurjónsson hlutu 4 vinninga af 5 mögulegum og deildu með sér gullinu.