30. júl. 2007 : Glimrandi Grænlandsmót í Vin

Hróksverjar og skákfélag Vinjar héldu Grænlandsmót 23. júlí í Vin, sem er athvarf Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir. Mótið var haldið í tilefni þess að skákfélagið Hrókurinn heldur áfram skáklandnámi sínu á Grænlandi í ágúst. Tólf þátttakendur skráðu sig til leiks, einhverjir vildu fremur fylgjast með og tveir komu of seint!

Fánar blöktu  í blómavösum, myndir frá fyrri ferðum Hróksins voru á veggjum ásamt landakortum svo gestir gætu virt fyrir sér þetta ótrúlega land. Stemningin var glimrandi, það var barið á klukkur sem voru yfirleitt réttar en stundum rangar og þrátt fyrir frábærar fléttur voru afleikir glæsilegir á köflum.