15. des. 2009 : Frábær þátttaka á jólamóti Skákfélags Vinjar

Tuttugu og þrír skráðu sig til leiks á jólamóti Skákfélags Vinjar í gær en mótið var kl. 13:15 í Vin að Hverfisgötunni. Var þetta næstfjölmennasta mót í Vin frá upphafi og stuð og fjör í stofunum.

Tefldar voru sex umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma og í miðju móti var jólalegt kaffiborð, með nýbökuðum smá- og piparkökum og nammi út um allt.

Hinn kraftmikli formaður Víkingaklúbbsins sem nýlega krækti sér í heimsmeistaratitil í lyftingum, Gunnar Freyr Rúnarson, sigraði glæsilega með 5 og hálfan vinning. Hrafn Jökulsson, nýkominn úr ferska loftinu að Ströndum, sýndi heldur betur snarpa takta og náði fimm vinningum. Hrannar Jónsson, sem þrátt fyrir mikið umstang við skákstjórn, var beittur og kom þriðji með 4,5.

18. nóv. 2009 : Dagur íslenskrar tungu tekinn með trompi

Haldið var upp á dag íslenskrar tungu með glæsibrag í Vin strax eftir hádegi, mánudaginn 16. nóvember. Fjórtán manns skráðu sig til leiks í móti þar sem þeir Ari Gísli Bragason og Eiríkur Ágúst Guðjónsson hjá Bókinni ehf. höfðu tekið til bækur handa hverjum og einum af mikilli natni. Bækur bæði með sál og sögu, rammíslenskar. Allt frá fegurstu ljóðum Jónasar Hallgrímssonar og mögnuðum texta Þórbergs í stórglæpi Stefáns Mána og Arnaldar.

Sérstakur heiðursgestur mótsins var Jorge Rodriguez Fonseca frá Madríd, sem hélt stutta tölu á íslensku – og sagði ekki orð á útlensku allan tímann – eftir að hafa þegið blóm og geisladisk með Megasi, sem þótti aldeilis við hæfi. Jorge hefur töluvert látið að sér kveða á hinum ýmsustu skákmótum undanfarin misseri og er hvergi nærri hættur. Að því loknu lásu þeir félagar, Ari Gísli og Eiríkur Ágúst upp úr íslenskri fyndni, svona til að koma fólki í gírinn.

8. okt. 2009 : GÍA tók forskot á Alþjóða geðheilbrigðisdaginn.

Gígja Thoroddsen, eða GÍA, opnaði myndlistarsýningu í Vin, athvarfi Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir, á miðvikudaginn. Sýningin verður uppi til 21. október en hún er haldin í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags þann 10. október. Sýningin nefnist „Tveggja hæða vit.” Gía bauð upp á léttar veitingar við opnunina og húsið fylltist af gestum.

Yfirskrift Alþjóða geðheilbrigðisdagsins í ár er: Öflugri og aðgengilegri geðheilbrigðisþjónusta

Haldið verður upp á daginn í göngugötunni í Mjódd og í húsakynnum Hugarafls að Álfabakka 16, laugardaginn 10. október frá kl. 13:00 – 16:30. Álfheiður Ingadóttir nýr heilbrigðisráðherra mun flytja ávarp og tónlistarmennirnir Geir Ólafs, Ingó úr Veðurguðunum og unglingahljómsveitin GÁVA taka lagið. Margt verður í boði og að sjálfsögðu verður árlegt skákmót í tilefni dagsins haldið við lok formlegrar dagskrár.

22. sep. 2009 : Ómar sigraði á afmælismóti forsetans

Fimmtán þátttakendur voru skráðir til leiks á afmælismóti til heiðurs forseta Skáksambandsins, Gunnari Björnssyni, sem haldið var í Vin, á mánudaginn, strax uppúr hádegi.

29. júl. 2009 : Gull um háls afmælisbarnsins

Tuttugu og tveir þátttakendur skráðu sig til leiks á stórafmælismót til heiðurs Róberti Lagerman í Vin, athvarfi Rauða kross Íslands, í gær, eftir hádegismatinn.
Frábær þátttaka og mótið firnasterkt. Þó andrúmsloftið hafi verið afslappað þá var hart barist og enginn afsláttur gefinn, en teflt var bæði innan- og utandyra þar sem veðurblíða ríkti.

Fyrir mótið fékk Róbert, aðalleiðbeinandi hjá Skákfélagi Vinjar undanfarin ár, hlýjar kveðjur og bókina “The days run away like wild horses over the hill” eftir Charles Bukowski, sem þótti nokkuð viðeigandi.

Forseti Skáksambandsins, Gunnar Björnsson, vísiteraði Vin og tók þátt auk þess sem varaforsetinn, Magnús Matthíasson, hélt stutta og fallega tölu um afmælisdrenginn og lék svo fyrsta leikinn í viðureign Róberts og Stefáns Bergssonar sem stóð í ströngu sem yfirdómari og aðstoðarskákstjóri.

16. apr. 2009 : Árlegt bingó Víðsýnar

Ferðafélagið Víðsýn hélt sitt árlega fjáröflunarbingó í Hátúni 10 í byrjun mánaðar. Víðsýn er ferðafélag Vinjar, athvarfs Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir. Félagið var stofnað fyrir 10 árum síðan og eru núna rúmlega 40 virkir meðlimir í félaginu.

Fjölmennt var á bingóinu. Auk gesta Vinjar voru þar fjölskyldur og vinir þeirra ásamt íbúum í Hátúni.
Vinningar voru margir mjög veglegir, leikhúsmiðar, hótelgisting og matarkörfur, en ýmis fyrirtæki hafa styrkt Víðsýn með framlagi á hverju ári.

Bingóið hefur verið árleg fjáröflun félagsins síðastliðin átta ár og hefur það sem inn kemur ávallt runnið upp í utanlandsferð. Í ár verður haldið til Suður – Þýskalands þar sem Svartiskógur er aðal aðdráttaraflið og munu tuttugu félagar Víðsýnar taka þátt í ferðinni. Fyrirlestrar og fræðsla um svæðið eru fyrirhugaðir vikurnar fyrir ferð. Þá mun Víðsýn einnig standa að tveimur dagsferðum innanlands í sumar.

1. apr. 2009 : 25 á Vin Open

Hluti skákhátíðarinnar sem nú stendur sem hæst var Vin Open, samstarf Skákakademíu Reykjavíkur og Skákfélags Vinjar, sem haldið var á mánudaginn.

26. mar. 2009 : Skákfélag Vinjar á Íslandsmótinu á Akureyri

Félagar í Skákfélagi Vinjar lögðu land undir hjól og óku norður á Akureyri um sl. helgi. Þátttaka í seinni hluta Íslandsmóts skákfélaga var verkefnið en sex manns fóru þessa ferð. Í félaginu eru reyndar skráðir 25 einstaklingar en ekki höfðu margir möguleika á að fara til höfuðborgar norðurlands að þessu sinni, þó mun fleiri hafi skipst á að tefla í fyrri hluta mótsins sem fram fór í Rimaskóla sl. haust.

Væntingar voru nokkrar, enda liðið í sjöunda sæti af þrjátíu liðum í fjórðu deild þegar keppnin hófst. Tvo sterka menn vantaði þó í liðið svo brugðið gat til beggja vona. Svo fór reyndar að færri vinningar komu í hús en vonast hafði verið eftir þannig að liðið endaði um miðja deild.

10. mar. 2009 : Vorið komið í Vin

Vormót Skákfélags Vinjar, athvarfs Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, fór fram mánudaginn 9. mars í Vin að Hverfisgötunni.

29. jan. 2009 : Afmælispilturinn sigraði

Fide meistarinn Björn Sölvi Sigurjónsson sigraði á afmælismóti, honum sjálfum til heiðurs, í Vin, athvarfi Rauða krossins við Hverfisgötu þann 26. janúar. Sextugur Björn var í rífandi stuði og fékk fimm vinninga úr sex skákum.

Fyrir mótið var afmælissöngurinn sunginn við undirleik á lítinn lírukassa, og síðan gítarundirleik Atla Arnarssonar. Birni voru svo færð blóm í tilefni dagsins.

Í annað sinn í sögu skákmóta í Vin, sem Skákfélag Vinjar og Hrókurinn setja upp, mættu átján manns á mánudegi klukkan 13, sem þykir frábært. Í hitt skiptið var það á Morgan Kane mótinu fyrir um ári síðan. En 27 þátttakendur voru reyndar þegar kveðjumót var haldið til heiðurs Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, fyrrum forseta og má mikið gerast til að það verði slegið. Að þessu sinni var yngsti þátttakandinn 13 ára og sá elsti 84.