29. jan. 2009 : Afmælispilturinn sigraði

Fide meistarinn Björn Sölvi Sigurjónsson sigraði á afmælismóti, honum sjálfum til heiðurs, í Vin, athvarfi Rauða krossins við Hverfisgötu þann 26. janúar. Sextugur Björn var í rífandi stuði og fékk fimm vinninga úr sex skákum.

Fyrir mótið var afmælissöngurinn sunginn við undirleik á lítinn lírukassa, og síðan gítarundirleik Atla Arnarssonar. Birni voru svo færð blóm í tilefni dagsins.

Í annað sinn í sögu skákmóta í Vin, sem Skákfélag Vinjar og Hrókurinn setja upp, mættu átján manns á mánudegi klukkan 13, sem þykir frábært. Í hitt skiptið var það á Morgan Kane mótinu fyrir um ári síðan. En 27 þátttakendur voru reyndar þegar kveðjumót var haldið til heiðurs Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, fyrrum forseta og má mikið gerast til að það verði slegið. Að þessu sinni var yngsti þátttakandinn 13 ára og sá elsti 84.