20. des. 2010 : Dregið hefur verið í jólahlutaveltu Víðsýnar

Ferðafélagið Víðsýn, ferðafélag gesta og starfsmanna Vinjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir stendur árlega fyrir fjáröflun. Að þessu sinni héldu þau jólahlutaveltu og leituðu til listamanna og fyrirtækja. Kann ferðafélagið þeim bestu þakkir fyrir.

Útgefnir miðar voru aðeins 200 og miðaverð 2000 kr. Dregið var eingöngu úr seldum miðum á Litlu Jólum Vinjar á föstudaginn.

Vinningar komu á eftirtalin númer:

16. des. 2010 : Deild 12 B tók jólabikarinn

Fimm lið skráðu sig til leiks á jólamóti að Kleppsspítala sem haldið var á þriðjudaginn sl. Skákfélag Vinjar og Hrókurinn tóku upp þennan skemmtilega sið fyrir nokkrum árum síðan og Víkingaklúbburinn tók þátt samstarfinu að þessu sinni.

Deild 12 hefur ávallt haft öfluga skákmenn innanborðs og sendi tvö lið að þessu sinni, deild 15 var með lið ásamt Búsetukjarna Reykjavíkurborgar, sem var skipað liðsmönnum frá Skúlagötu 70 og 74 auk þess sem starfsmenn vinnustaðarins Múlalundar skelltu í lið. Forföll urðu hjá áfangaheimilinu að Gunnarsbraut og íbúum Flókagötu 29-31 á síðustu stundu.  Nokkrir liðsmenn Vinjar fylltu upp í lið þar sem vantaði en þrír eru í liði og einn starfsmaður leyfður.

Gunnar Björnsson, forseti, setti mótið og lét þess getið að Kleppsspítalinn hafi verið mikill áhrifavaldur í lífi sínu. Er hann sem ungur - yngri - maður starfaði að Kleppsspítala, einmitt á hinni miklu skákdeild númer 12, hafi hann kynnst konu sinni sem starfaði á deild 15. 

7. des. 2010 : Glæsilegt jólamót Skákfélags Vinjar

21 þátttakandi skráði sig í baráttuna um jólabækurnar þegar Skákfélag Vinjar hélt jólamótið sitt í Vin, Hverfisgötu 47,  í gær.  Mótið var afar hressandi, ekki síst þar sem borgarstjórinn hann Jón Gnarr setti mótið með stæl og lék fyrsta leikinn fyrir Björn Sölva Sigurjónsson, jókerinn í Skákfélagi Vinjar, gegn Hinrik P. Friðrikssyni. Borgarstjóranum fannst Björn fullbrattur að leika a4 og vildi meina að hann ætti betri kosti en Björn gaf sig ekki enda hokinn af reynslu.

Mótið var býsna jafnt og spennandi og ekkert gefið eftir. Kjartan Guðmundsson og Birgir Berndsen stóðust þó áhlaup og árásir glerharðra skákmanna og enduðu jafnir með fimm og hálfan af sex. Kjartan hafði þetta þó á hálfu stigi. Tvær skákkonur, þær Inga Birgis og Elsa María Kristínardóttir, voru með og rusluðu þessu upp, urðu í þriðja og fjórða sæti með fjóra vinninga eins og Jorge Fonseca og Siguringi Sigurjóns sem komu í því fimmta og sjötta.

26. nóv. 2010 : Félags skákmót

Fyrsta félagsmót Skákfélags Vinjar var haldið í gærkvöldi og mættu þrettán manns.

Tefldar voru sjö umferðir með tíu mínútna umhugsunartíma og allt í járnum, enda félagsbikarinn undir.

Nokkuð var um forföll vegna prófa hjá námsmönnum og einhverjir Vinjarmenn að tefla á öðrum mótum. Þá er ótrúlegt rokk í liðsmönnum og a.m.k. einn með tónleika á sama tíma.

16. nóv. 2010 : Tuttugu og sjö á afmælismóti Hrafns

Góð mæting var á afmælismót Hrafns Jökulssonar sem Skákfélag Vinjar hélt pilti til heiðurs í Rauðakrosshúsinu, Borgartúni 25, í gær. Hrafn krækti í fertugasta og fimmta árið þann 1. nóv. og fimmta sætið á mótinu enda einvalalið sem tók þátt.

Gunnar Björnsson, forseti, startaði mótinu með því að leika fyrsta leikinn fyrir Hrafn gegn hinum eitilharða Birni Sigurjónssyni og tónninn gefinn. Teflt var djarft og glæsilegir sigrar – og ósigrar – litu dagsins ljós og reyndi á skákstjórann Róbert Lagerman í einhverjum tilfellum. Reyndar við borðið líka, en stjórinn hélt haus og Tómas Björnsson var sá eini sem náði jafntefli við kappann.

29. okt. 2010 : Róbert sigraði á ótrúlega vel sóttu geðheilbrigðismóti

Róbert Lagerman (2273) sigraði á ótrúlega vel sóttu Geðheilbrigðismóti sem fram fór í kvöld en hvorki meira né minna en 79 skákmenn tóku þátt.   Róbert kom í mark jafn Gylfa Þórhallssyni (2200), Sigurði Daða Sigfússyni (2334) og Arnar Þorsteinssyni (2217) en hafði sigur eftir stigaútreikning.   Það voru Skákfélag Vinjar, Taflfélagið Hellir og Taflfélag Reykjavíkur sem héldu mótið í sameiningu í húsnæði TR.   Mótið var haldið í tilefni alþjóðlegs Geðheilbrigðisdags sem reyndar var 10. október en þá voru skákmenn uppteknir á Íslandsmóti skákfélaga.   Forlagið gaf einkar glæsilega vinninga.

Ýmis aukaverðlaun voru veitt á mótinu.  Björn Sölvi Sigurjónsson fékk verðlaun fyrir 60 ára og eldri, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir var efst kvenna, Guðmundur Kristinn Lee var efstur 13-18 ára og Gauti Páll Jónsson var efstur 12 ára og yngri.  Í þeim flokk fengu Heimir Páll Ragnarsson og Vignir Vatnar Stefánsson einnig verðlaun fyrir 2. og 3. sæti en þremenningarnir eru allir nemendur hjá Skákakademíu Reykjavíkur.

18. ágú. 2010 : Vinjarfólk á ferð um Norðurlandið

Húsavíkurdeild Rauða krossins fékk góða gesti í heimsókn í vikunni því gestir og starfsfólk Vinjar, athvarfs Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, er á ferðalagi um Norðurland. Ingólfur Freysson formaður deildarinnar tók á móti ferðalöngunum, bauð þeim í léttan hádegisverð hjá deildinni og fór með þeim í skoðunarferð um Húsavíkurbæ.

Húsavík er fallegur bær og með mikla sögu. Ingólfur sýndi gestunum Lystigarðinn, Húsavíkurkirkju, fræddi þau um sögu Kaupfélags Þingeyinga og bygginga tengda verslunarsögu bæjarins. Fyrr um daginn bauð Hvalasafnið gestunum í heimsókn.

27. júl. 2010 : Víðsýn á víkingaslóðum

Þann 22. júli héldu félagar í ferðafélaginu Víðsýn og Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir,  í dagsferð. Var förinni heitið að Eiríksstöðum í Dölunum til þess að skoða víkingasafnið þar.

Alls voru 28 félagar Víðsýnar og Vinjar með í för.

21. júl. 2010 : Æsispennandi afmælismót í Vin

Tuttugu og sex þátttakendur skráðu sig til leiks í sólarblíðunni við Hverfisgötuna á mánudaginn, þegar skákmót var haldið til heiðurs afmælisbarni mánaðarins, Magnúsi Matthíassyni, fráfarandi varaforseta Skáksambands Íslands, en hann varð fjörutíu og fimm ára fyrr í mánuðinum.

Næst fjölmennasta mót í sögu skákfélags Vinjar, sem haldið er í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, var staðreynd og líflegt við borðin enda teflt bæði inni og úti.

4. jún. 2010 : sumarmót og skákskýringar í Vin

Óli B. Þórs, hinn síðhærði skákvíkingur, verður með skýringu á einni af sínum uppáhalds skákum í Vin á mánudaginn, 7. júní kl. 13:00
Það tekur 20-30 mínútur og af því loknu verður haldið sumarmót Skákfélags Vinjar undir stjórn þeirra félaga Óla og Róberts Lagerman.

Tefldar verða 5-6 umferðir með 7 mínútna umhugsunartíma og Bókaforlagið Bjartur hefur gefið vinninga fyrir efstu sætin og auk þess verða dregnir út happadrættisvinningar.

Boðið verður upp á kaffi að sjálfsögðu og þvílíkt vinalegt andrúmsloft, þó baráttan verði hörð.
Vin er að Hverfisgötu 47 í Reykjavík og er athvarf fyrir fólk með geðraskanir, rekið af Rauða krossi Íslands. Síminn er 561-2612 en skráning á staðnum og mótið algjörlega opið öllum.

21. maí 2010 : Lambafellsklofi klifinn. Þrek og þor!

Ferðafélagið Víðsýn, sem samanstendur af gestum og starfsfólki Vinjar, stóð fyrir dagsferð í gær. Reykjanesið varð fyrir valinu að þessu sinni og hófst ferðin með gönguferð í mildum rigningarúða að Lambafelli og í gegnum brattan klofann.

Gangan tók um klukkustund og voru sumir betur búnir en aðrir til göngu í óbyggðum Íslands. En allir kláruðu hringinn og hjálpuðust að við klifið. Þegar upp var komið var stutt í brosið eftir þennan mikla sigur. Með í för sem leiðsögumaður var Ingibjörg Eggertsdóttir frá landsskrifstofunni.

Á eftir var keyrt áleiðis til Grindavíkur þar sem Saltfisksetrið var skoðað og snædd súpa og heimabakað brauð. Krísuvíkurhringurinn var tekinn á heimleiðinni og stoppað við hverasvæðið og Kleifarvatn.
 

18. maí 2010 : Tómas Björnsson glæpakóngur Vinjar

Glæpafaraldur í Vin gekk yfir í dag.  Það var algjör reifari að horfa á lætin við skákborðið og farsakennd mistök litu dagsins ljós, þó ígrundaðar fléttur og mannfórnir dygðu  stundum til að ganga frá andstæðingnum.

Skákfélag Vinjar og Hrókurinn buðu upp á glæpafaraldurinn en verðlaun buðu þeir heiðurspiltar í Bókinni ehf., eða fornbókabúð Braga, eins og sumir segja, upp á. Bragi sjálfur komst ekki til að leika fyrsta leikinn, en Eiríkur Ágúst Guðjónsson, hinn ótrúlega glöggi bókaormur og starfsmaður í Bókinni, mætti og hélt stutta tölu við setningu mótsins, þar sem hann ræddi um taflmennsku sína við fanga og fremur  dapra uppskeru gegn þeim, er hann var fangavörður fyrir nokkrum árum síðan. Svo lék hann fyrsta leikinn í viðureign Róberts Lagerman og Hauks Halldórssonar í fyrstu umferð og fékk frjálst val.

12. maí 2010 : BINGÓÓÓÓ

Félagar í ferðafélaginu Víðsýn, sem auðvitað er staðsett í Vin, héldu sitt árlega fjáröflunarbingó í Rauðakrosshúsinu Borgartúni 25 í byrjun maí.

Var þetta í fyrsta sinn sem bingóið var haldið í Borgartúninu og var undirbúningur talsverður, en fjöldi gesta og starfsmanna athvarfsins hafði komið að vinningaöflun og tóku svo að sér bingóspjaldasölumennsku auk þess að standa í sjoppunni, þar sem hægt var að fá samlokur, súkkulaði og alls kyns drykki.

Á fjórða tug manna, kvenna og barna sat þarna í hóp með hverja taug spennta, enda glæsilegir vinningar í boði, má þar nefna; leikhúsferðir, út að borða, hótelgisting og allt fyrir tvo, auk þess matarkörfur og fleira flottmeti. Spilaðar voru allar mögulegar útfærslur, lárétt og lóðrétt og H og L og hvaðeina undir stjórn bingómeistarans Inga Hans Ágústssonar en um kynningar og afhendingu vinninga sá Ása Hildur Guðjónsdóttir.

20. apr. 2010 : Veturinn kvaddur með hörkumóti í Rauðakrosshúsinu

Þátttökumetinu í skákinni í Rauðakrosshúsinu var algjörlega rústað á mánudaginn, þegar tuttuguogfjórir mættu til leiks klukkan 13:30.  Það var líf og fjör í Borgartúninu, enda teflt á tólf borðum innan um prjónahóp, tölvuunnendur og fræðsluhópa, en eins og í Hálsaskógi voru allir vinir.

Þess ber að geta að Stefán Bergsson átti stórleik með því að bjóða nokkrum nemendum Skákakademíunnar á mótið.

Skákfélag Vinjar, í samstarfi við Hrókinn, hefur haldið mót á nokkurra vikna fresti frá opnun Rauðakrosshússins, og ávallt hefur verið fín mæting. Aldrei þó sem nú. Skákstjórinn Róbert Lagerman fékk heldur betur að hafa fyrir sigrinum því óárennilegur hópur gerði tilkall til toppsætis. Róbert var kátur í lokin eftir jafntefli við Ingvar Þór Jóhannesson og hafði með því náð sigri, hlaut sex og hálfan af sjö, en tefldar voru sjö umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma.  Hinn eitilharði skagamaður, Einar Kristinn Einarsson, kom annar með sex og Ingvar Þór þriðji með 5,5.

17. apr. 2010 : Skákmót í Rauðakrosshúsinu

Rauðakrosshúsið, Borgartúni 25, mánudagur 19.04.2010 kl: 13:30

Skákfélag Vinjar og Hrókurinn setja upp síðasta skákmót vetrarins í Rauðakrosshúsinu á mánudaginn, þann 19. apríl kl. 13,30.

Tefldar verða sjö umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma.

Ávallt er stutt í kaffikönnuna í Borgartúninu og létt andrúmsloft þó margt sé í gangi  á sama tíma.

Bókaforlagið Bjartur hefur gefið vinninga fyrir efstu þátttakendur auk þess sem dregnir verða út happadrættisvinningar.

Skákstjóri er Róbert Lagerman, hinn víðfrægi varaforseti Hróksins.

Skráning á staðnum og kostar ekki baun. Allir velkomnir.

15. apr. 2010 : Frétt RKÍ

15. apr. 2010 : Köttur út í mýri

Guðmundur Brynjólfsson opnaði myndlistarsýningu sína, „köttur út í mýri” í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, miðvikudaginn 14. apríl.

Guðmundur býr að Bjargi á Seltjarnarnesi og hefur sinnt myndlist sinni þar að mestu, en tekur þátt í myndlistarhópi Vinjar.

Töluverður gestafjöldi var við opnunina, þar sem Þórdís Rúnarsdóttir, forstöðumaður Vinjar, hélt stutta tölu. Boðið var upp á léttar veitingar og gott andrúmsloft.

Sýndar eru 14 ný olíumálverk og eitt eldra akrílverk. Myndirnar eru til sölu og er verði mjög stillt í hóf.

„Köttur út í mýri” verður uppi í tvær vikur og eru allir hjartanlega velkomnir í heimsókn í Vin, Hverfisgötu 47 í Reykjavík.

26. mar. 2010 : Ferfættur vinur í Vin

Fimmtudagar eru sérstakir dagar í athvarfinu Vin að Hverfisgötu. Þá fá gestir hússins heimsókn frá vin sem segir ekki margt en er þeim mun elskulegri við alla. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu fylgdist með og birti meðfylgjandi myndskeið.

15. mar. 2010 : Skákfélag Vinjar að stimpla sig inn

Skákfélag Vinjar tók þátt í Íslandsmóti skákfélaga annað árið í röð þennan veturinn og fór síðari hluti mótsins fram í byrjun mars í Rimaskóla. Skákfélagið er starfrækt innan veggja Vinjar, sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og er að Hverfisgötu 47 í Reykjavík. Tefldar eru skákir þar sem umhugsunartíminn er 90 mínútur á mann.

Fyrir þennan síðari hluta, þar sem tefldar voru þrjár umferðir, var Skákfélag Vinjar í 9. sæti af 32 liðum í 4. deild og byrjaði ekki mjög vel. Vantaði þrjá menn í liðið sem alls telur sex, en 30 félagar eru skráðir þannig að alltaf eru einhverjir til taks.

Hrannar Jónsson á fyrsta borði, Björn Sölvi Sigurjónsson á öðru og Jón Birgir Einarsson á því þriðja drógu vagninn og var frammistaða þeirra mögnuð. Neðri borðin kræktu í einn og einn vinning og liðið endaði í sjötta sæti sem er frábær árangur. Talsverð upplifun er að sitja yfir svo löngum skákum og vera hluti af þeim 400 manna hópi sem er í þungum þönkum í íþróttasal Rimaskóla mest alla helgina.

2. mar. 2010 : Hrannar sigraði á Vin – Open

Einn skemmtilegra hliðarviðburða við MP Reykjavíkurmótið var Vin- Open sem haldið var kl. 12:30 í dag. Var það samstarfsverkefni Skákfélags Vinjar, Skáksambands Íslands og Skákakademíu Reykjavíkur. Tuttugu og tveir skráðu sig til leiks þar sem tefldar voru sex umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma í huggulegu andrúmsloftinu í Vin.

Gunnar Björnsson, forseti, lék fyrsta leikinn  í skák Róberts Lagerman og Birkis Karls Sigurðssonar og var sjálfum sér samkvæmur. Lék hinn vinsæla g3 leik.

Eftir þriðju umferð var vöfflukaffi, orka og ávextir.

25. feb. 2010 : VIN – OPEN

Mánudaginn 1. mars heldur Skákfélag Vinjar, í samstarfi við Skáksamband Íslands, stórmótið Vin – Open.

Hefst það kl. 12:30 og þarf að vera búið að skrá sig fyrir þann tíma.

Vin – Open er hliðarverkefni vegna Reykjavík  Open, eða MP Reykjavíkurskákmótsins, og er öllum opið. Stefnt er að því að nokkrir þátttakendur á mótinu, erlendir og innlendir,  muni taka þátt eins  og sl. ár þegar á þriðja tug þátttakenda var í stórskemmtilegu móti.

Teflt er um bikar auk þess sem vinningar verða veittir fyrir efstu sæti, auk þess sem veitt verða verðlaun fyrir:
bestan árangur: undir 2000 elo stigum, undir 1500 stigum og bestan árangur stigalausra.

23. feb. 2010 : Þorraveisla í Vin

Fyrir nokkrum vikum sendum við tölvupóst frá okkur í Vin á rás 2 þar sem hægt var að komast í lukkupott og vinna þorramatsveislu fyrir 15 manns.  Viti menn Vin var dregin út og vann!!! 

Ekki nóg með það því þegar haft var samband við veisluþjónustuna, Matborðið, sem gaf herlegheitin, þá bauð eigandinn í ljósi þess frábæra starfs sem hér væri unnið, að við fengjum þann mat sem þyrftum þ.e. allir sem skráðu sig í mat þegar veislan yrði skyldu fá að borða. Í stuttu máli voru hér yfir 30 manns í mat og gæddu sér á ljúffengum þorramat föstudaginn 19. febrúar. 

Allir fengu nóg og svo ríflega var skammtað að afgangurinn verður svo borðaður á eftir helgina.  Við þökkum Rás 2 og Matborðinu kærlega fyrir okkur.

16. feb. 2010 : Sautján manns í Rauðakrosshúsinu

Skákfélag Vinjar og Hrókurinn héldu mót í Rauðakrosshúsinu, Borgartúni 25 í gær. Þrátt fyrir að mótið hæfist kl. 13:30 voru 17 skráðir til leiks og nokkrir áhorfendur kíktu. Enn aðrir sem sóttu þarna námskeið litu á kempurnar í ham.

Skákstjórarnir Róbert Lagerman og Hrannar Jónsson græjuðu þetta létt, enda orðnir þvílíkt vanir. Róbert bar sigur úr býtum með 5 og hálfan af sex mögulegum, en 7 mínútna umhugsunartími var á mann. Má segja að Róbert hafi náð jafntefli við Kjartan Guðmundsson, flísalagningaspesíalista.
Boðið var upp á kaffi og meðlæti í Rauðakrosshúsinu að venju svo allir þátttakendur voru bara nokkuð góðir. Fimm efstu fengu bókaverðlaun og hann Kristinn Andri, Fjölnismaður, sem krækti í þrjá vinninga fékk unglingaverðlaunin.

12. feb. 2010 : Vin 17 ára

Mánudaginn 8. febrúar varð Vin 17 ára. Það var reyndar lokað þann dag, því þetta árið er lokað annan mánudag hvers mánaðar, svona vegna ástandsins í þjóðfélaginu.

Ákveðið var að vera ekki með neitt húllumhæ vegna afmælisins, heldur bara að fara saman út að borða og hafa  það huggulegt. Veitingastaðurinn Písa við Lækjargötu bauð smá afslátt fyrir tuttugu manna hópinn sem mættur var á miðvikudaginn,  rétt fyrir klukkan fimm. Pizzur og pastaréttir voru á boðstólnum auk dýrindis steikarmáltíða og fiskrétta og þá var bara að velja!

11. feb. 2010 : ríflega hundrað og fimmtíu ár

Þrír piltar, sem lengi hafa kíkt í Vin, héldu sameiginlega upp á afmæli sitt á föstudaginn, 5. febrúar. Voru þeir samanlegt ríflega 150 ára gamlir. Buðu þeir spræku drengir, Sigurður Fáfnir, Magnús Hákonarson og Eyjólfur Kolbeins, upp á brauðtertur og skúffuköku, gosdrykki og kaffi. Húsið fylltist því orðrómur berst hratt og úr varð stórskemmtileg veisla.

Óskar Einarsson sem lengi spilaði á börum bæjarins, kom með gítarinn og hélt uppi rífandi stemningu svo það var sannkallað partý frá kl. tvö til fjögur. Var sungið með, bæði íslenska slagara og Boney M og  einhverjir tóku léttan snúning á stofugólfinu.

4. feb. 2010 : Myndlistarakademía Vinjar

Myndlistarakademía Vinjar er hægt og bítandi að vakna til lífsins, eftir alllangan blund. Þó hefur hobbýherbergið í kjallaranum verið í töluverðri notkun sl. ár og margir búnir að vera að leika sér með kol, pastelliti og mála með akrýl.

Eyjólfur Kolbeins, sem hér hefur verið festur á mynd, hefur komið í Vin frá því að athvarfið opnaði fyrir –alveg að verða- 17 árum síðan. Hann var virkur í myndlistarakademíunni þar sem fólk málaði eins og enginn væri morgundagurinn hér fyrir nokkrum árum. Eyjólfur hefur bætt vel við kunnáttu sína og lagt slatta inn á reynslubankann á þessum árum, með því að sækja nám við Myndlistaskóla Reykjavíkur og taka þátt í sýningum á nokkrum stöðum.

28. jan. 2010 : Listir og menning

Á miðvikudögum er annar opnunartími en vanalega yfir vetrarmánuðina, opið 11-18. Það þýðir að hádegisverði er sleppt og kvöldmatur framreiddur 16:30. En uppúr kl. 13 heldur ætíð misstór hópur á vit listagyðjunnar og fáar sýningar stærri safnanna fara fram hjá Vinjargenginu og þau minni heimsótt eins og hægt er. Í gær trítlaði sex manna hópur frá Hverfisgötu og upp Þingholtin, virti fyrir sér Hallgrímskirkju þar sem hurðarskipti eru að fara fram, spjallaði lítillega við hressa krakka á leikskólanum Grænuborg og gekk inn í Listasafn ASÍ við Freyjugötu.

Þar voru tveir útdannaðir piltar með sýningu, annars vegar Þorri Hringsson með málverkasýningu sína „Sjóndeildarhringur tilverunnar” þar sem hann sýnir róandi landslagsverk sín og það fer ekki fram hjá neinum að Þorri er verulega flinkur og hefur kannski ekki langt að sækja það. Hinsvegar var Jóhannes Dagsson að sýna ljósmyndir sínar undir fyrirsögninni „Firnindi”. Þar hefur Jóhannes gert stórbrotin landslagsverk úr allskyns efnum og fötunum sínum og var hinn listunnandi gönguhópur yfir sig ánægður með sýningarnar og að hafa drifið sig út í góðan göngutúr.