28. jan. 2010 : Listir og menning

Á miðvikudögum er annar opnunartími en vanalega yfir vetrarmánuðina, opið 11-18. Það þýðir að hádegisverði er sleppt og kvöldmatur framreiddur 16:30. En uppúr kl. 13 heldur ætíð misstór hópur á vit listagyðjunnar og fáar sýningar stærri safnanna fara fram hjá Vinjargenginu og þau minni heimsótt eins og hægt er. Í gær trítlaði sex manna hópur frá Hverfisgötu og upp Þingholtin, virti fyrir sér Hallgrímskirkju þar sem hurðarskipti eru að fara fram, spjallaði lítillega við hressa krakka á leikskólanum Grænuborg og gekk inn í Listasafn ASÍ við Freyjugötu.

Þar voru tveir útdannaðir piltar með sýningu, annars vegar Þorri Hringsson með málverkasýningu sína „Sjóndeildarhringur tilverunnar” þar sem hann sýnir róandi landslagsverk sín og það fer ekki fram hjá neinum að Þorri er verulega flinkur og hefur kannski ekki langt að sækja það. Hinsvegar var Jóhannes Dagsson að sýna ljósmyndir sínar undir fyrirsögninni „Firnindi”. Þar hefur Jóhannes gert stórbrotin landslagsverk úr allskyns efnum og fötunum sínum og var hinn listunnandi gönguhópur yfir sig ánægður með sýningarnar og að hafa drifið sig út í góðan göngutúr.