25. feb. 2010 : VIN – OPEN

Mánudaginn 1. mars heldur Skákfélag Vinjar, í samstarfi við Skáksamband Íslands, stórmótið Vin – Open.

Hefst það kl. 12:30 og þarf að vera búið að skrá sig fyrir þann tíma.

Vin – Open er hliðarverkefni vegna Reykjavík  Open, eða MP Reykjavíkurskákmótsins, og er öllum opið. Stefnt er að því að nokkrir þátttakendur á mótinu, erlendir og innlendir,  muni taka þátt eins  og sl. ár þegar á þriðja tug þátttakenda var í stórskemmtilegu móti.

Teflt er um bikar auk þess sem vinningar verða veittir fyrir efstu sæti, auk þess sem veitt verða verðlaun fyrir:
bestan árangur: undir 2000 elo stigum, undir 1500 stigum og bestan árangur stigalausra.

23. feb. 2010 : Þorraveisla í Vin

Fyrir nokkrum vikum sendum við tölvupóst frá okkur í Vin á rás 2 þar sem hægt var að komast í lukkupott og vinna þorramatsveislu fyrir 15 manns.  Viti menn Vin var dregin út og vann!!! 

Ekki nóg með það því þegar haft var samband við veisluþjónustuna, Matborðið, sem gaf herlegheitin, þá bauð eigandinn í ljósi þess frábæra starfs sem hér væri unnið, að við fengjum þann mat sem þyrftum þ.e. allir sem skráðu sig í mat þegar veislan yrði skyldu fá að borða. Í stuttu máli voru hér yfir 30 manns í mat og gæddu sér á ljúffengum þorramat föstudaginn 19. febrúar. 

Allir fengu nóg og svo ríflega var skammtað að afgangurinn verður svo borðaður á eftir helgina.  Við þökkum Rás 2 og Matborðinu kærlega fyrir okkur.

16. feb. 2010 : Sautján manns í Rauðakrosshúsinu

Skákfélag Vinjar og Hrókurinn héldu mót í Rauðakrosshúsinu, Borgartúni 25 í gær. Þrátt fyrir að mótið hæfist kl. 13:30 voru 17 skráðir til leiks og nokkrir áhorfendur kíktu. Enn aðrir sem sóttu þarna námskeið litu á kempurnar í ham.

Skákstjórarnir Róbert Lagerman og Hrannar Jónsson græjuðu þetta létt, enda orðnir þvílíkt vanir. Róbert bar sigur úr býtum með 5 og hálfan af sex mögulegum, en 7 mínútna umhugsunartími var á mann. Má segja að Róbert hafi náð jafntefli við Kjartan Guðmundsson, flísalagningaspesíalista.
Boðið var upp á kaffi og meðlæti í Rauðakrosshúsinu að venju svo allir þátttakendur voru bara nokkuð góðir. Fimm efstu fengu bókaverðlaun og hann Kristinn Andri, Fjölnismaður, sem krækti í þrjá vinninga fékk unglingaverðlaunin.

12. feb. 2010 : Vin 17 ára

Mánudaginn 8. febrúar varð Vin 17 ára. Það var reyndar lokað þann dag, því þetta árið er lokað annan mánudag hvers mánaðar, svona vegna ástandsins í þjóðfélaginu.

Ákveðið var að vera ekki með neitt húllumhæ vegna afmælisins, heldur bara að fara saman út að borða og hafa  það huggulegt. Veitingastaðurinn Písa við Lækjargötu bauð smá afslátt fyrir tuttugu manna hópinn sem mættur var á miðvikudaginn,  rétt fyrir klukkan fimm. Pizzur og pastaréttir voru á boðstólnum auk dýrindis steikarmáltíða og fiskrétta og þá var bara að velja!

11. feb. 2010 : ríflega hundrað og fimmtíu ár

Þrír piltar, sem lengi hafa kíkt í Vin, héldu sameiginlega upp á afmæli sitt á föstudaginn, 5. febrúar. Voru þeir samanlegt ríflega 150 ára gamlir. Buðu þeir spræku drengir, Sigurður Fáfnir, Magnús Hákonarson og Eyjólfur Kolbeins, upp á brauðtertur og skúffuköku, gosdrykki og kaffi. Húsið fylltist því orðrómur berst hratt og úr varð stórskemmtileg veisla.

Óskar Einarsson sem lengi spilaði á börum bæjarins, kom með gítarinn og hélt uppi rífandi stemningu svo það var sannkallað partý frá kl. tvö til fjögur. Var sungið með, bæði íslenska slagara og Boney M og  einhverjir tóku léttan snúning á stofugólfinu.

4. feb. 2010 : Myndlistarakademía Vinjar

Myndlistarakademía Vinjar er hægt og bítandi að vakna til lífsins, eftir alllangan blund. Þó hefur hobbýherbergið í kjallaranum verið í töluverðri notkun sl. ár og margir búnir að vera að leika sér með kol, pastelliti og mála með akrýl.

Eyjólfur Kolbeins, sem hér hefur verið festur á mynd, hefur komið í Vin frá því að athvarfið opnaði fyrir –alveg að verða- 17 árum síðan. Hann var virkur í myndlistarakademíunni þar sem fólk málaði eins og enginn væri morgundagurinn hér fyrir nokkrum árum. Eyjólfur hefur bætt vel við kunnáttu sína og lagt slatta inn á reynslubankann á þessum árum, með því að sækja nám við Myndlistaskóla Reykjavíkur og taka þátt í sýningum á nokkrum stöðum.