26. mar. 2010 : Ferfættur vinur í Vin

Fimmtudagar eru sérstakir dagar í athvarfinu Vin að Hverfisgötu. Þá fá gestir hússins heimsókn frá vin sem segir ekki margt en er þeim mun elskulegri við alla. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu fylgdist með og birti meðfylgjandi myndskeið.

15. mar. 2010 : Skákfélag Vinjar að stimpla sig inn

Skákfélag Vinjar tók þátt í Íslandsmóti skákfélaga annað árið í röð þennan veturinn og fór síðari hluti mótsins fram í byrjun mars í Rimaskóla. Skákfélagið er starfrækt innan veggja Vinjar, sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og er að Hverfisgötu 47 í Reykjavík. Tefldar eru skákir þar sem umhugsunartíminn er 90 mínútur á mann.

Fyrir þennan síðari hluta, þar sem tefldar voru þrjár umferðir, var Skákfélag Vinjar í 9. sæti af 32 liðum í 4. deild og byrjaði ekki mjög vel. Vantaði þrjá menn í liðið sem alls telur sex, en 30 félagar eru skráðir þannig að alltaf eru einhverjir til taks.

Hrannar Jónsson á fyrsta borði, Björn Sölvi Sigurjónsson á öðru og Jón Birgir Einarsson á því þriðja drógu vagninn og var frammistaða þeirra mögnuð. Neðri borðin kræktu í einn og einn vinning og liðið endaði í sjötta sæti sem er frábær árangur. Talsverð upplifun er að sitja yfir svo löngum skákum og vera hluti af þeim 400 manna hópi sem er í þungum þönkum í íþróttasal Rimaskóla mest alla helgina.

2. mar. 2010 : Hrannar sigraði á Vin – Open

Einn skemmtilegra hliðarviðburða við MP Reykjavíkurmótið var Vin- Open sem haldið var kl. 12:30 í dag. Var það samstarfsverkefni Skákfélags Vinjar, Skáksambands Íslands og Skákakademíu Reykjavíkur. Tuttugu og tveir skráðu sig til leiks þar sem tefldar voru sex umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma í huggulegu andrúmsloftinu í Vin.

Gunnar Björnsson, forseti, lék fyrsta leikinn  í skák Róberts Lagerman og Birkis Karls Sigurðssonar og var sjálfum sér samkvæmur. Lék hinn vinsæla g3 leik.

Eftir þriðju umferð var vöfflukaffi, orka og ávextir.