20. apr. 2010 : Veturinn kvaddur með hörkumóti í Rauðakrosshúsinu

Þátttökumetinu í skákinni í Rauðakrosshúsinu var algjörlega rústað á mánudaginn, þegar tuttuguogfjórir mættu til leiks klukkan 13:30.  Það var líf og fjör í Borgartúninu, enda teflt á tólf borðum innan um prjónahóp, tölvuunnendur og fræðsluhópa, en eins og í Hálsaskógi voru allir vinir.

Þess ber að geta að Stefán Bergsson átti stórleik með því að bjóða nokkrum nemendum Skákakademíunnar á mótið.

Skákfélag Vinjar, í samstarfi við Hrókinn, hefur haldið mót á nokkurra vikna fresti frá opnun Rauðakrosshússins, og ávallt hefur verið fín mæting. Aldrei þó sem nú. Skákstjórinn Róbert Lagerman fékk heldur betur að hafa fyrir sigrinum því óárennilegur hópur gerði tilkall til toppsætis. Róbert var kátur í lokin eftir jafntefli við Ingvar Þór Jóhannesson og hafði með því náð sigri, hlaut sex og hálfan af sjö, en tefldar voru sjö umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma.  Hinn eitilharði skagamaður, Einar Kristinn Einarsson, kom annar með sex og Ingvar Þór þriðji með 5,5.

17. apr. 2010 : Skákmót í Rauðakrosshúsinu

Rauðakrosshúsið, Borgartúni 25, mánudagur 19.04.2010 kl: 13:30

Skákfélag Vinjar og Hrókurinn setja upp síðasta skákmót vetrarins í Rauðakrosshúsinu á mánudaginn, þann 19. apríl kl. 13,30.

Tefldar verða sjö umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma.

Ávallt er stutt í kaffikönnuna í Borgartúninu og létt andrúmsloft þó margt sé í gangi  á sama tíma.

Bókaforlagið Bjartur hefur gefið vinninga fyrir efstu þátttakendur auk þess sem dregnir verða út happadrættisvinningar.

Skákstjóri er Róbert Lagerman, hinn víðfrægi varaforseti Hróksins.

Skráning á staðnum og kostar ekki baun. Allir velkomnir.

15. apr. 2010 : Frétt RKÍ

15. apr. 2010 : Köttur út í mýri

Guðmundur Brynjólfsson opnaði myndlistarsýningu sína, „köttur út í mýri” í Vin, athvarfi Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir, miðvikudaginn 14. apríl.

Guðmundur býr að Bjargi á Seltjarnarnesi og hefur sinnt myndlist sinni þar að mestu, en tekur þátt í myndlistarhópi Vinjar.

Töluverður gestafjöldi var við opnunina, þar sem Þórdís Rúnarsdóttir, forstöðumaður Vinjar, hélt stutta tölu. Boðið var upp á léttar veitingar og gott andrúmsloft.

Sýndar eru 14 ný olíumálverk og eitt eldra akrílverk. Myndirnar eru til sölu og er verði mjög stillt í hóf.

„Köttur út í mýri” verður uppi í tvær vikur og eru allir hjartanlega velkomnir í heimsókn í Vin, Hverfisgötu 47 í Reykjavík.