21. maí 2010 : Lambafellsklofi klifinn. Þrek og þor!

Ferðafélagið Víðsýn, sem samanstendur af gestum og starfsfólki Vinjar, stóð fyrir dagsferð í gær. Reykjanesið varð fyrir valinu að þessu sinni og hófst ferðin með gönguferð í mildum rigningarúða að Lambafelli og í gegnum brattan klofann.

Gangan tók um klukkustund og voru sumir betur búnir en aðrir til göngu í óbyggðum Íslands. En allir kláruðu hringinn og hjálpuðust að við klifið. Þegar upp var komið var stutt í brosið eftir þennan mikla sigur. Með í för sem leiðsögumaður var Ingibjörg Eggertsdóttir frá landsskrifstofunni.

Á eftir var keyrt áleiðis til Grindavíkur þar sem Saltfisksetrið var skoðað og snædd súpa og heimabakað brauð. Krísuvíkurhringurinn var tekinn á heimleiðinni og stoppað við hverasvæðið og Kleifarvatn.
 

18. maí 2010 : Tómas Björnsson glæpakóngur Vinjar

Glæpafaraldur í Vin gekk yfir í dag.  Það var algjör reifari að horfa á lætin við skákborðið og farsakennd mistök litu dagsins ljós, þó ígrundaðar fléttur og mannfórnir dygðu  stundum til að ganga frá andstæðingnum.

Skákfélag Vinjar og Hrókurinn buðu upp á glæpafaraldurinn en verðlaun buðu þeir heiðurspiltar í Bókinni ehf., eða fornbókabúð Braga, eins og sumir segja, upp á. Bragi sjálfur komst ekki til að leika fyrsta leikinn, en Eiríkur Ágúst Guðjónsson, hinn ótrúlega glöggi bókaormur og starfsmaður í Bókinni, mætti og hélt stutta tölu við setningu mótsins, þar sem hann ræddi um taflmennsku sína við fanga og fremur  dapra uppskeru gegn þeim, er hann var fangavörður fyrir nokkrum árum síðan. Svo lék hann fyrsta leikinn í viðureign Róberts Lagerman og Hauks Halldórssonar í fyrstu umferð og fékk frjálst val.

12. maí 2010 : BINGÓÓÓÓ

Félagar í ferðafélaginu Víðsýn, sem auðvitað er staðsett í Vin, héldu sitt árlega fjáröflunarbingó í Rauðakrosshúsinu Borgartúni 25 í byrjun maí.

Var þetta í fyrsta sinn sem bingóið var haldið í Borgartúninu og var undirbúningur talsverður, en fjöldi gesta og starfsmanna athvarfsins hafði komið að vinningaöflun og tóku svo að sér bingóspjaldasölumennsku auk þess að standa í sjoppunni, þar sem hægt var að fá samlokur, súkkulaði og alls kyns drykki.

Á fjórða tug manna, kvenna og barna sat þarna í hóp með hverja taug spennta, enda glæsilegir vinningar í boði, má þar nefna; leikhúsferðir, út að borða, hótelgisting og allt fyrir tvo, auk þess matarkörfur og fleira flottmeti. Spilaðar voru allar mögulegar útfærslur, lárétt og lóðrétt og H og L og hvaðeina undir stjórn bingómeistarans Inga Hans Ágústssonar en um kynningar og afhendingu vinninga sá Ása Hildur Guðjónsdóttir.