29. okt. 2010 : Róbert sigraði á ótrúlega vel sóttu geðheilbrigðismóti

Róbert Lagerman (2273) sigraði á ótrúlega vel sóttu Geðheilbrigðismóti sem fram fór í kvöld en hvorki meira né minna en 79 skákmenn tóku þátt.   Róbert kom í mark jafn Gylfa Þórhallssyni (2200), Sigurði Daða Sigfússyni (2334) og Arnar Þorsteinssyni (2217) en hafði sigur eftir stigaútreikning.   Það voru Skákfélag Vinjar, Taflfélagið Hellir og Taflfélag Reykjavíkur sem héldu mótið í sameiningu í húsnæði TR.   Mótið var haldið í tilefni alþjóðlegs Geðheilbrigðisdags sem reyndar var 10. október en þá voru skákmenn uppteknir á Íslandsmóti skákfélaga.   Forlagið gaf einkar glæsilega vinninga.

Ýmis aukaverðlaun voru veitt á mótinu.  Björn Sölvi Sigurjónsson fékk verðlaun fyrir 60 ára og eldri, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir var efst kvenna, Guðmundur Kristinn Lee var efstur 13-18 ára og Gauti Páll Jónsson var efstur 12 ára og yngri.  Í þeim flokk fengu Heimir Páll Ragnarsson og Vignir Vatnar Stefánsson einnig verðlaun fyrir 2. og 3. sæti en þremenningarnir eru allir nemendur hjá Skákakademíu Reykjavíkur.