7. sep. 2011 : Skemmtilegt afmælismót í Vin

Alþjóðlegi meistarinn Haukur Angantýsson sigraði á afmælismóti Ingibjargar Eddu Birgisdóttur í Vin –athvarfi Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir. Mótið var afar hressilegt enda vel skipað og góðir gestir í heimsókn. Skákstjórinn hann Stefán Bergsson varð annar og Hjálmar Sigurvaldason átti flott mót og varð þriðji í mótinu. Ingibjörg hefur verið dugleg að mæta á æfingar og mót í Vin og hún hélt utan um skákina í sumar. Þessi fyrrum Íslandsmeistari kvenna sem er komin aftur eftir langt hlé mun tefla með Selfyssingum í vetur.

Hinn geðþekki borgarfulltrúi Óttarr Proppé setti mótið með nokkrum afar vel völdum orðum og lék fyrsta leikinn fyrir Grétar Sigurólason sem tefldi gegn afmælisbarninu. Það var þó ekki gert fyrr en Þórdís Rúnarsdóttir, forstöðukona athvarfsins, hafði fært Ingu afmælisgjöf með hlýjum orðum.

2. sep. 2011 : Afmælismót Ingibjargar Eddu í Vin á mánudaginn

Mánudaginn 5. september, klukkan 13:00, heldur Skákfélag Vinjar mót til heiðurs afmælisbarni dagsins, henni Ingibjörgu Eddu Birgisdóttur, sem verður tuttugu og sjö vetra. Inga var rétt búin að taka upp fermingargjafirnar þegar hún varð Íslandsmeistari kvenna, í fyrra skiptið, en tók svo langa pásu frá skákinni. Hún hefur nú komið til baka með offorsi og teflir með Skákfélagi Selfoss og nágrennis í vetur. Auk þess var hún kjörin í stjórn Skáksambandsins nú í vor.

Inga hefur haldið utan um skákina í Vin að miklu leyti í sumar og á skilið almennilegt mót. Hinn geðþekki borgarfulltrúi og formaður hverfisráðs miðborgar, fulltrúi í menntaráði og varamaður annarra ráða, Óttarr Ó. Proppé, mun heiðra keppendur og Vinjarfólk með heimsókn í athvarfið. Óttarr mun setja mótið auk þess að leika fyrsta leikinn.