Dagur íslenskrar tungu tekinn með trompi

18. nóv. 2009

Haldið var upp á dag íslenskrar tungu með glæsibrag í Vin strax eftir hádegi, mánudaginn 16. nóvember. Fjórtán manns skráðu sig til leiks í móti þar sem þeir Ari Gísli Bragason og Eiríkur Ágúst Guðjónsson hjá Bókinni ehf. höfðu tekið til bækur handa hverjum og einum af mikilli natni. Bækur bæði með sál og sögu, rammíslenskar. Allt frá fegurstu ljóðum Jónasar Hallgrímssonar og mögnuðum texta Þórbergs í stórglæpi Stefáns Mána og Arnaldar.

Sérstakur heiðursgestur mótsins var Jorge Rodriguez Fonseca frá Madríd, sem hélt stutta tölu á íslensku – og sagði ekki orð á útlensku allan tímann – eftir að hafa þegið blóm og geisladisk með Megasi, sem þótti aldeilis við hæfi. Jorge hefur töluvert látið að sér kveða á hinum ýmsustu skákmótum undanfarin misseri og er hvergi nærri hættur. Að því loknu lásu þeir félagar, Ari Gísli og Eiríkur Ágúst upp úr íslenskri fyndni, svona til að koma fólki í gírinn.

Tefldar voru sex umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma og stjórnaði Fide meistarinn Róbert Lagerman mótshaldi, en hann er á leiðinni út í lönd til að ná í skákstig. Lofar að koma heim sem Alþjóðlegur meistari.

Róbert fékk verðuga keppni að þessu sinni en hafði sigur, fékk 5 vinninga af 6. Björn Sölvi Sigurjónsson kom næstur með 4,5 en hann gerði 3 jafntefli og vann þrjár. Jorge, Kjartan Guðmundsson og Magnús Aronsson voru með fjóra, Jorge krækti í þriðja sætið.

Í miðju móti var kaffipása þar sem piparkökulyktin fyllti hús. Skákfélag Vinjar og Hróksfélagar þakka þeim félögum Ara Gísla og Eiríki Ágústi fyrir stuðninginn og skemmtunina. En annars endaði þetta svona:


1     Robert Lagerman 5       
2     Björn Sölvi Sigurjonsson 4.5      
3-5   Jorge Fonseca 4       
      Kjartan Guðmundsson 4       
      Magnus Aronsson 4         
6-7   Finnur Kr. Finnsson 3.5
      Haukur Halldórsson 3.5                                                              
8-10  Arnljotur Sigurðsson 2.5     
      Hlynur Gestsson 2.5     
      Arnar Valgeirsson 2.5     
11-12 Björgvin Kristbergsson 2       
      Embla Dis 2        
13-14 Einar Björnsson 1       
      Jon S. Olafsson 1