Listir og menning

28. jan. 2010

Á miðvikudögum er annar opnunartími en vanalega yfir vetrarmánuðina, opið 11-18. Það þýðir að hádegisverði er sleppt og kvöldmatur framreiddur 16:30. En uppúr kl. 13 heldur ætíð misstór hópur á vit listagyðjunnar og fáar sýningar stærri safnanna fara fram hjá Vinjargenginu og þau minni heimsótt eins og hægt er. Í gær trítlaði sex manna hópur frá Hverfisgötu og upp Þingholtin, virti fyrir sér Hallgrímskirkju þar sem hurðarskipti eru að fara fram, spjallaði lítillega við hressa krakka á leikskólanum Grænuborg og gekk inn í Listasafn ASÍ við Freyjugötu.

Þar voru tveir útdannaðir piltar með sýningu, annars vegar Þorri Hringsson með málverkasýningu sína „Sjóndeildarhringur tilverunnar” þar sem hann sýnir róandi landslagsverk sín og það fer ekki fram hjá neinum að Þorri er verulega flinkur og hefur kannski ekki langt að sækja það. Hinsvegar var Jóhannes Dagsson að sýna ljósmyndir sínar undir fyrirsögninni „Firnindi”. Þar hefur Jóhannes gert stórbrotin landslagsverk úr allskyns efnum og fötunum sínum og var hinn listunnandi gönguhópur yfir sig ánægður með sýningarnar og að hafa drifið sig út í góðan göngutúr.

Nýlega var farið að sjá Carnegie Art award sýninguna í Listasafni Íslands, Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu er jafnan heimsótt þegar ný sýning dettur inn en eftir viku verður farið í Ljósmyndasal Íslands á sjöttu hæð þar sem Borgarbókasafnið er.  Eftir þrjár vikur verður farið í Gerðuberg þar sem hún Jenný er með sýningu. Ekki er ákveðið með hvert haldið verður  þarna á milli en það verður eitthvað skemmtilegt í gangi þá, enda mun dagurinn í Vin enda á því að tuttugu manna hópur fer saman út að borða í tilefni 17 ára afmælis Vinjar, sem reyndar er tveimur dögum fyrr eða mánudaginn 8. febrúar. Svo illa vill þó til að þá er lokað.