Myndlistarakademía Vinjar

4. feb. 2010

Myndlistarakademía Vinjar er hægt og bítandi að vakna til lífsins, eftir alllangan blund. Þó hefur hobbýherbergið í kjallaranum verið í töluverðri notkun sl. ár og margir búnir að vera að leika sér með kol, pastelliti og mála með akrýl.

Eyjólfur Kolbeins, sem hér hefur verið festur á mynd, hefur komið í Vin frá því að athvarfið opnaði fyrir –alveg að verða- 17 árum síðan. Hann var virkur í myndlistarakademíunni þar sem fólk málaði eins og enginn væri morgundagurinn hér fyrir nokkrum árum. Eyjólfur hefur bætt vel við kunnáttu sína og lagt slatta inn á reynslubankann á þessum árum, með því að sækja nám við Myndlistaskóla Reykjavíkur og taka þátt í sýningum á nokkrum stöðum.

Nú er sem sagt að hefjast  smá ævintýri í kjallaranum í Vin á þriðjudögum, þar sem þeir sem vilja geta tekið þátt í hópverkefni, sem ætlað er að taka eins og eina meðgöngu. Afraksturinn verður síðan sýndur á vel völdum stað í haust. Nokkrir lærðir myndlistarmenn hafa tekið að sér  að leiðbeina hópnum, en þau eru: Gunnar Gunnarsson, sálfræðingur og myndlistarmaður, Helgi Ásmundsson, myndhöggvari og skúlptúristi, Guðný Svava Strandberg, myndlistarmaður  og –kennari auk hennar Olgu Yilmaz sem hefur verið með léttar leikfimiæfingar í Vin á morgnana undanfarið ár, auk þess að vera myndþerapisti. Gunnar S. Magnússon, sem leiddi myndlistarakademíuna hér áður, verður einnig með í ráðum, en hann er nú upptekinn við að undirbúa eigin sýningu sem verður bráðum sett upp í Hallgrímskirkju.

Búið er ákveða þema og byrjað er að vinna undir ákveðnu vinnuheiti eða yfirskrift. Þetta kemur allt í ljós, enda meðgangan stutt á veg komin.